:ÞRÓUN:
Skemmtileg hugmynd fyrir þróun íslenskrar tungu: X verður nýja Z
En hvað þýðir það!? Ég á sko ekki við að við setjum X í orð þar sem Z hafði verið, þ.e.a.s. ég er ekki að stinga upp á ritunarhættinum hanxi og íslenxa þó það sé vissulega mjög smart. Ég er að stinga upp á að X komi í staðinn fyrir gs og ks í orðum. Dæmi:
Hugsa > Huxa
Tókst > Tóxt
Lagsmaður > Laxmaður
Loksins > Loxins
Sogskál > Soxskál
Spennandi....
Þessi þróun gæti átt sér stað á næstu 50-100 árum en svo er ég nefnilega að vona...
Þegar við erum loxins búin að missa tengsl við uppruna þessara orða getum við farið að velta fyrir okkur tilgang X. Þá mun líka hafa átt sér stað hljóðbreyting, æ fleiri bera X fram eins og ss. Menntskælingar eru hættir að muna hvar skal rita X og hvar skal rita ss í stafsetningarprófum. Þá förum við kannski loxins að ræða hvort það sé ekki yfir höfuð best bara að losa okkur við X og skrifa bara ss í staðinn. Það er langeinfaldast og þá hættir fólki loxins að líða eins og það sé heimskt.
Þá munu áðurnefnd orð vera rituð á þennan hátt:
Huxa > Hussa
Tóxt > Tósst
Laxmaður > Lassmaður
Loxins > Lossins
Soxskál > Sossskál
Ég held að þetta væri skemmtilegt verkefni fyrir þjóðina til að takast á við á næstu árum.
Þórunn Þróunarspekingur
Innsent 1.11.2025, birt 1.11.2025