Í orðaforða þjóðarinnar eru fjölmargir frasar sem flestir segja án mikillar umhugsunar. Oftar en ekki gegna þessir frasar því hlutverki að hefja smáspjall; á vinnustað, í skóla eða í fermingarveislu fjarskylds frænda. En umhugsunarlausir frasar gefa sömuleiðis af sér umhugsunarlaus svör. Stöðluð spurning krefst staðlaðs svars. En hvað ef spurningarnar og svörin þyrftu ekki að vera stöðluð? Gæti smáspjöll þjóðarinnar þannig orðið stærri? Hvað ef það eru betri spurningar en “hvað segirðu gott?” Spurningar sem bjóða upp á áhugaverðari og nákvæmari svör en bara “allt fínt”. Staðreyndin er jú sú að fólk vill segja hvernig því líður og fólk vill vita hvernig öðrum líður. Nú er ég hvorki að segja að spyrjandi eigi að krefja svaranda um tilfinningaflóð, né að svarandi eigi að svara með tilfinningaflóði, báðir aðilar þurfa að sjá til þess saman að tilfinningum sé haldið á stigi sem er viðeigandi í viðkomandi aðstæðum. Það má samt alveg létta af sér. Tökum nokkur dæmi.
Hér fyrir neðan má lesa dæmi um það sem þessi maður gæti sagt í stað þess sem hann er að segja
1. Í stað “hvað segirðu gott?” spurðu “ertu í góðu skapi?”
Kostur spurningarinnar “ertu í góðu skapi?” er að hún færir svarandanum kost á því að svara af hreinskilni án þess að krefjast hreinskilni. Einhver myndu segja að gallinn sé að spurningin er já/nei spurning og færa rök fyrir því að “já” sé auðvelt svar til að komast hjá því að svara af hreinskilni. En það er einmitt málið. Spurningin á að bjóða upp á hreinskilni án þess að krefjast hennar. Það að spyrja hvort einhver sé í góðu skapi gefur merki um að spyrjandi sé tilbúinn að heyra svar sem mögulega sé neikvætt. Vegna þess hve spurningin er óalgeng gefur líka svarandanum tækifæri (eða jafnvel neyðir hann til) þess að staldra við og velta spurningunni fyrir sér. Er ég í góðu skapi? Já veistu ég er í góðu skapi. Eða nei, ég er eitthvað úrill/-ur. Svo má, allt eftir aðstæðum, fylgja spurningunni eftir með “hvað fær þig til að vera í svona góðu skapi?” eða “já ókei, eitthvað sem þú vilt ræða?”
Mikilvægt er að spyrja ekki leiðandi spurningarinnar “ertu ekki í góðu skapi?” því það gefur ekki sama kost á neitun.
2. Í stað “hvað gerir þú?” spurðu “hvað finnst þér skemmtilegast að gera?”
Í algengu samhengi er með spurningunni “hvað gerir þú?” átt við “við hvað vinnur þú?” en flestir myndu frekar vilja segja frá áhugamálunum sínum og hafa ekki áhuga á að tala um vinnuna sína. Sé hins vegar vinnan það sem fólki finnst raunverulega skemmtilegast að gera er það fullkomlega gilt svar við spurningunni. “Ég elska að elda góðan mat”, “ég er í áhugaleikfélagi” eða “ég keppi í íshokkí” eru í yfirgnæfandi meirihluta tilvika áhugaverðari svör og líklegri til að skila af sér skemmtilegri samtölum.
Með þessari spurningu er spyrjandinn jafnframt að gefa það merki að hann hafi ekki áhuga á að skipa viðmælandanum í stétt í huga sér. Langi viðmælandum virkilega til að segja frá því að hann sé háttsettur millistjórnandi í fjárfestingabanka mun hann koma því að hvort sem spyrjanda líkar betur eða verr. En finnist viðmælanda það ekki áhugavert að vera verkfræðingur sem les og skrifar excel-skjöl allan daginn þarf hann ekkert að segja frá því frekar en hann vill.
3. Í stað “hvernig var helgin?” spurðu “hvað gerðir þú skemmtilegt síðasta fimmtudag?”
Markmiðið hér er að draga fram mikilvægi þess að það eru ekki aðeins helgar sem eru þess verðugar að fá um sig spjall. Jafnvel mætti færa rök fyrir því að fimmtudagar séu áhugaverðari en helgar. Helgar eru oft nýttar í slökun eða mætingu á skylduviðburði eins og barnaafmæli en á fimmtudögum eru oft áhugaverðir tónleikar um allan bæ og fimmtudagar eru vinsælir leikhúsdagar. Jafnvel þó síðasti fimmtudagur hafi verið hversdagslegur þá gefur spurningin möguleika á svörum á borð við “ég gerði ekkert merkilegt á fimmtudaginn en á miðvikudaginn hins vegar…”. Það er að segja að þó spurningin nefni aðeins fimmtudag er með henni gefið í skyn að spyrjandi vilji vita hvað viðmælandinn hefur gert skemmtilegt sem var ekki bara um síðustu helgi.
Þetta eru bara þrjú dæmi um spurningar sem ég mæli með að þið notið næst þegar þið rekist á vinnufélaga eða kynnist kærasta vinkonu ykkar. En ekki láta staðar numið hér, heldur látið ykkur detta í hug ykkar eigin spurningar og samtalskveikjur í stað þeirra sem þið eruð orðin þreytt á og virka frekar sem bremsur en bensíngjöfin sem þeim er ætlað að vera.
Björgvin Brynjarsson
Innsent 13.10.2025, birt 13.10.2025