Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

ÉG ER HÆTT Á SPOTIFY!!! (FRELSI!)





Vá, ég er loksins hætt. Ég er loksins frjáls. Merkilegt hvað það var góð tilfinning að hætta. Ég hef lengi verið á leiðinni að rjúfa áskriftina og ég get eiginlega ekki útskýrt af hverju það tók mig svona langan tíma. Mér var farið að líða eins og það væru ákveðin mannréttindi að vera sífellt með aðgang að allri jarðneskri tónlist á sama tíma og ég fékk aðskilnaðarkvíða þegar ég hugsaði um að rjúfa þessi tengsl. Mér leið eins og ég þyrfti að vera búin að undirbúa mig rosa vel, helst vera búin að hala niður allri tónlistinni sem ég var með vistaða svo ég myndi ekki glata henni. En svo tókst forstjóra Spotify loksins að vera nógu passlega ógeðslegur til þess að ég gæti ekki með nokkru móti réttlætt að vera með aðgang. Bless Spotify, ástæða: Moral issues. 



                       Allt í einu er tónlist einhvers virði aftur!

Innst inni hef ég lengi vitað að það væri eitthvað bogið við þetta. 1700 kr. á mánuði fyrir öll lög heimsins. Kannski tengi ég bara ekki við að vera með svona mikið aðgengi. Í rauninni týni ég öllu sem ég elska í ofgnóttinni og hvert lag verður einnota. Ég var búin að gleyma tilfinninguna sem fylgir því að eiga tónlist. Ekki bara er hvert lag einhvers virði því það er eign þín (þú átt aðganginn að því, þú leigir hann ekki bara) heldur hefur hvert lag miklu meira tilfinningalegt gildi. Þetta eru lögin sem ég tók meðvitaða ákvörðun um að eiga. Lögin Sem einhver gaf mér, lögin sem ég keypti því mér finnst þau svo góð eða forvitnileg, lögin sem ég hlustaði endalaust á þegar ég var 17, lögin sem mér fannst kúl en nennti aldrei að hlusta á því platan er svo erfið. Á meðan ég skrifa er ég að hala geisladiskunum mínum niður á iTunes. Ég á alveg nóg af góðri tónlist og mér þykir svo vænt um hvert lag sem ég á. Ég þarf ekki að leigja alla tónlist í heiminum. Ef einhver er að pæla í að hætta þá mæli ég eindregið með (alla vega að finna sér aðra streymisveitu). Mitt plan er  að sanka að mér geisladiskum og færa yfir á iTunes, (mögulega mun ég hala sumu niður ólöglega…) og svo ætla ég að nota þennan mánaðarlega 2000 kall til að kaupa tónlist beint af tónlistarfólki í staðinn fyrir að styrkja einhverja snauða forstjóra.

Ef einhver vill skiptast á tónlist þá má endilega hafa samband.


Katla
Innsent 27.7.2025, birt 27.7.2025

© Krant 2025