Tungumálið nær ekki utan um raunveruleikann. Til þess að það gengi upp þyrfti að vera til
orð yfir öll möguleg fyrirbæri og skilningur okkar á öllum þessum orðum þyrfti að vera
samræmdur. Svo er ekki. Í samskiptum er mikið pláss fyrir óræðni sérstaklega ef staðið er
fyrir utan samhengið eða málhefðir talandans eru ókunnugar. Ef tungumálið er túlkað á
rangan hátt á sér stað misskilningur. Í Beðið eftir Godot er nóg af svoleiðis. Tungumálið
verður leikvangur fáránleikans; allt sem getur farið úrskeiðis, fer úrskeiðis. Í þessari ritgerð
mun ég skoða hvernig Samuel Beckett miðlar tungumálinu til áhorfenda.
Í leikritinu virðast Estragon og Vladimir vera með sitthvora máltilfinninguna. Þeir eru eins
konar samskiptatrúðar; í hvert skipti sem boðið er upp á óræðni túlka þeir hana á ólíkan hátt.
ESTRAGON:
Ég hlýt að hafa fleygt þeim.
VLADIMIR:
Hvenær?
ESTRAGON: Það veit ég ekki.
VLADIMIR: Hversvegna?
ESTRAGON: Ég veit ekki hversvegna ég veit það ekki!
Flestir hefðu getað dregið þá ályktun að spurning Vladimir þýði „hversvegna fleygðiru
stígvélunum“ en ekki „hversvegna veistu það ekki“. Þó er það í rauninni ekki svo augljóst.
Spurningin kemur jú beint á eftir staðhæfingunni „það veit ég ekki“ svo hvernig vissum við
að Vladimir var ekki að spyrja út í það?
POZZO: En eruð þið vinir?
ESTRAGON: Hann langar til að vita hvort við séum vinir!
VLADIMIR: Nei, hann meinar hvort við séum vinir hans.
Spurning Pozzo getur bæði átt við túlkun Estragon og Vladimir. En vitandi samhengi
senunnar: Pozzo er blindur og þarf hjálp við að reisa sig við, finnst manni augljóst að túlka
eigi hana eins og Vladimir gerir. Í öðru samhengi þætti manni ekkert undarlegt að túlka hana
eins og Estragon gerir.
ESTRAGON: (hann lyftir því sem eftir er af gulrótinni [...]) Skrýtið, hún
verður verri eftir því sem maður borðar meira af henni.
VLADIMIR: Hjá mér er það alveg þveröfugt.
ESTRAGON: Með öðrum orðum?
VLADIMIR: Ég venst jukkinu meðan ég ét.
ESTRAGON: Er það þveröfugt?
Hvað getur Vladimir átt við þegar hann segir að þessar upplifanir séu þveröfugar? Upplifun
Estragon á gulrótaátinu er óánægjuleg og upplifun Vladimir er það líka, það verður seint talið
ánægjulegt að venjast jukkinu. En upplifunin á sér kannski þveröfuga framvindu þar sem
Estragon veitir óánægjulega þættinum meiri athygli eftir því sem líður á átið en Vladimir
veitir honum minni athygli.
Í gegnum leikritið otar Beckett því jafnt og þétt að manni að tungumálið sé brigðult. Fyrst
aðalpersónurnar geta varla spurt hvor aðra að einföldum spurningum án þess að til verði
misskilningur hljóta málin að vandast þegar talað erum flóknari fyrirbæri eins og tilfinningar,
lífið, sjálfið, tímann og umhverfið.
Svona otar Beckett því jafnt og þétt að manni að tungumálið er brigðult. Hamingjan er tekin
sérstaklega fyrir enda illskilgreint geðbrigði og ómælanegt sem hverjum og einum er gert að
túlka það á sinn hátt. Hamingjan er Vladimir sérstaklega hugleikin. Hann spyr til dæmis
Drenginn hvort hann sé óhamingjusamur og Vladimir til furðu býður Drengurinn ekki upp á
nein svör. Í leit sinni að merkingu orðsins hvetur hann Estragon að máta það með sér:
VLADIMIR: Segðu: Ég er hamingjusamur.
ESTRAGON: Ég er hamingjusamur.
VLADIMIR: Ég líka.
Seinna, þegar Vladimir rifjar þetta samtal upp, verða orðin sem sögð voru að
raunveruleikanum. Það er að segja Vladimir túlkar það svo að fyrst að þeir sögðust vera
hamingjusamir þá hljóta þeir að hafa verið hamingjusamir og fyrst ekkert hefur breyst þá
hljóta þeir að vera ennþá hamingjusamir. Á þetta að vera sjálfsblekking eða hafði tungumálið
áhrif á hvernig hann mundi eftir fortíðinni?
Önnur þráhyggja persónanna er tíminn. Þegar Pozzo missir sjónina lýsir hann því yfir að þeir
blindu hafi ekkert tímaskyn. Er tíminn þá bara gangur sólarinnar; ljósið sem leiftrar fyir
augum okkar frá fæðingu til dauða? Eða er tími tala sem við ímyndum okkur að sé alltaf að hækka? Til að beisla skilning okkar á tímanum höfum við tekið það að okkur að nefna allar
mínútur sólarhringsins: 07:01, 07:02, 07:03 o.s.frv. Í þessari nákvæmni er samt falin ákveðin
einföldun. Gert er ráð fyrir því að tuttuguogsex mínútur yfir tvö dagsins í dag eigi eitthvað
sameiginlegt með sömu mínútu dagsins í gær.
VLADIMIR: Þetta fékk tímann til að líða.
ESTRAGON: Hann hefði liðið hvort eð var.
VLADIMIR: Já, en ekki svona fljótt.
Tímaskyn okkar er hins vegar ekki jafn staðlað og tímaskyn tungumálsins. Sumar mínútur
upplifum við eins og þær þeysist hjá en í öðrum er maður látinn dúsa of lengi og enginn á
sömu upplifun af sömu mínútunni. Tíminn er því að hluta til persónuleg upplifun, næstum
eins og tilfinning.
POZZO: Hvað er klukkan?
VLADIMIR: (gaumgæfir himininn) Sjö... átta...
ESTRAGON: Fer eftir árstíma.
Ef við gefum okkur að hlutverk tímans er að auðvelda skilning okkar á umhverfinu flækjast
málin sömuleiðis. Samband tíma og umhverfis er heldur ekki staðlað. Mínútan 38 mínútur
yfir átta að kvöldi til lýsir alls ekki sama umhverfi í janúar og í júní. Veðurfar, hnattræn
staðsetning og árstíðir hafa áhrif á hvernig tíminn birtist okkur. Þessi hugmynd um tímann
kristallast þegar Pozzo útskýrir ljósaskiptin, ekki með nákvæmum tímamælingum heldur
heldur ljóðrænum tilþrifum:
POZZO: Hann er er bjartur og fölur eins og margir himnar á þessum
tíma dags. Á þessari breiddargráðu. Þegar veðrið er gott.
Fyrir einni stundu svona sirkabát þá hún hafði hellt geislum
sínum ofan síðan svona tíu í morgun í hamstola ljóssins
ofansteypingi ýmist rauðum eða hvítum uns hann tekur að
glata ljóma sínum, fölna, fölna, jafnt og þétt og fölari uns
pppfff! Búið! Því slotar. En á bak við þessa friðarins og
mildinnar dulu gerir nóttin áhlaup og mun bresta á oss púff!
Bara svona! Einmitt þegar við eigum síst von á því.
Lýsing Pozzo á ljósaskiptunum nær mun frekar utan um upplifun okkar á ljóskiptunum
heldur en staðhæfingin að sólin sest klukkan fimmtíuogtvær mínútur yfir sex. Pozzo býr til
ímyndaða framvindu með endurtekningu í tungumálinu: „Himininn fölnar, fölnar, jafnt og
þétt ögn fölari, ögn fölari“, og þó pppfff og púff séu varla orð þá ná þau ótrúlega vel utan um
skyndileikann sem maður upplifir. Ljósaskipti eru nefnilega algjört pppfff; maður tekur varla
eftir þeim á meðan þau eru að eiga sér stað því augun venjast rökkrinu jafnóðum þangað til
pppfff og á skellur niðamyrkur.
Kannski er máttur tungumálsins ekki möguleiki á nákvæmni heldur möguleiki á að skapa
nýjar tengingar. Í fyrri hlutanum lýsir Pozzo því að ofmikið nikótín hleypi hjartanu á
gobbedígobb. Myndin virkjar ímyndunaraflið, við heyrum hófadyn og upplifum þannig hraða
hjartans. Staðlaðari leið til að lýsa sömu upplifun væri að segja að hjartslátturinn aukist.
Hafandi heyrt staðlaða orðasambandið aðeins of oft er ónauðsynlegt að virkja ímyndunaraflið
til að túlka merkinguna. Svipað gerist í seinni hluta þegar Vladimir biður Estragon að
formæla sér. Eftur umhugsun dettur Estragon í hug að kalla hann hinu algenga skammyrði
óþekktarormur. Orðið hefur ekki næg áhrif á Vladimir og hann biður Estragon að vera
grimmari. Þá dettur Estragon mun frumlegri skammir í hug: lekandasýkill og
sárasóttargyrmi. Það er áhrifameira að mynda glæný hugrenningatengsl hjá áheyrandanum
heldur en að notast við útþvættar lýsingar eins og óþekktarormur. Í leikritinu var það þýið
Lucky sem kenndi Pozzo að hugsa á ljóðrænan hátt. Hann sinnir því hlutverki
hugmyndasmiðs fyrir Pozzo. Seinna segir Pozzo hinum frá dans Lucky sem hann kallar netið
því hann upplifir sig flæktan í net. Er Lucky eina persónan sem er fær að túlka hugarástand
þeirra allra með einu orði og dansverki? Er Lucky mögulega listamaður?
VLADIMIR: [...] Á morgun þegar ég vakna, eða held ég vakni, hvað á ég
þá að segja um þennan dag? Að ég hafi ásamt Estragoni vini
mínum, hér á þessum stað, þar til nóttin kom, beðið eftir
Godot? Að Pozzo hafi farið hjá ásamt burðarmanninum
sínum og að hann hafi talað við okkur? Líklega. En hvaða
sannleikur verður í því fólginn? [...] Við höfum tíma til að
eldast. Óp okkar fylla loftin. En vaninn er bráðslævandi.
Undir lok seinni dagsins spyr Vladimir hvað hann eigi að segja um þennan dag. Hann einn
ræður því en orðavalið skiptir miklu máli því það mótar hvernig horft verður til baka.
Raunveruleiki þessa dags er ekki lengur til einungis vitnisburður Vladimir. Í tungumálinu er
takmarkaður sannleikur og því megum við ekki leyfa því að stýra hvernig við upplifum
tilveruna þó það hjálpi okkur að skilja hana og skrásetja. Það má líka alls ekki leyfa
tungumálinu að festast í vananum því þá dofnar það. Því situr hver kynslóð uppi með það
verkefni að endurskoða tungumálið og hver listamaður uppi með það verkefni að ná utan um
þær upplifanir sem ekki hefur tekist að setja í orð. Bráðslævandi vani, hamingjuleitin og
hverfull tíminn voru líklega Beckett ofarlega í huga þegar hann skrifaði leikritið. Hugmyndir
sem flókið getur verið að ná utan um með orðum en mögulega er hægt komast að einhverju í
tveggja tíma leikriti... Greyið Lucky, að eilífu fastur í ól auðmannsins samt er hann eina
persónan sem virðist geta túlkað upplifun þeirra með einu orði og dansverki.
Dæmin vísa í þýðingu Árna Ibsen sem birtist í safnritinu Sögur, leikrit, ljóð frá árinu 1987.
Katla Björk Gunnarsdóttir
Innsent 4.10.2025, birt 4.10.2025