Höfðum heyrt að himbrimar söfnuðust saman á Þingvallavatni í október. Ákváðum að gera okkur ferð og athuga hvort eitthvað væri í gangi. Rigningarúði og þokuslæða á leiðinni, skyggnið slæmt. Keyrðum Vatnskotsveg niður að vatninu og gengum svo síðasta spölinn. Sáum ekkert líf til að byrja með þótt það sæist vel út á vatnið. Allt frekar grátt. Ákváðum að ganga með vatninu í vestur. Fljótlega sáum við eitt himbrimapar í grennd við bakkann og svo annað lengra úti á vatninu. Heyrðum þá góla yfir vatnið, hljóðin vel í stíl við grámann. Gott ef við sáum svo ekki einn í viðbót lengra frá, en enga samkomu. Ákváðum að fara. Vorum á heimleið (svangar, kaffiþyrstar) en tókum þá eftir því að það var töluvert bjartara sunnan við vatnið. Ákváðum því að kíkja á Úlfljótsvatn líka. Vorum að keyra upp veginn að skátamiðstöðunni þegar við sáum þá, a.m.k. 30 saman. Það var samkoma! Líf og fjör! En erfitt að sjá þá vel úti á miðju vatninu. Einhvers konar leikur virtist í gangi, einn tók á flug og hinir eltu. Í æsingnum við að komast nær vatninu rann TBG í leðju og varð drullug upp fyrir haus. KBG tókst að standa í lappirnar allan tímann.
TBG & KBG
Innsent 7.11.2025, birt 7.11.2025