Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

SKÓR





kjærasta kveðjan, Katla Björk
Innsent 18.8.2025, birt 18.8.2025

TÓNLISTARMENN SEM ERU SAMA NAFNIÐ FYRIR MÉR


elton john

billy idol

bob dylan 

bruce springsteen 

billy joel

kær kveðja, María Einarsdóttir
Innsent 14.8.2025, birt 14.8.2025

ÁNTITILS




innsent
Innsent 14.8.2025, birt 14.8.2025

GERÐU ÞAÐ STÆKT!


Leyfðu mér að kynna fyrir þér svalasta mann jarðar, og ef ég leyfi mér að búa til nýtt lýsingarorð, mann sem einnig er sá allra stækasti. Mann sem vekur upp hjá mér tilfinningar sem engum öðrum tekst að vekja. Og hvaða maður gæti þetta verið? Jú, við erum hér að tala um saxófónleikarann Maceo Parker.

Good god! Huuh!

En hvaða tilfinningar eru þetta sem hann vekur hjá mér? Það er erfitt að lýsa þeim en þetta er einhvers konar von. Já hann vekur upp hjá mér von um að ég geti verið jafn svalur og hann. Von sem líklegast mun aldrei raungerast en samt sem áður, í hvert skipti sem ég sé hann spila þá vaknar vonin. Málið er að hans svali er ekki kominn til vegna klæðaburðar, hárgreiðslu, eða veraldlegra eigna heldur einungis vegna sviðsframkomu og stækju sem algjörlega er laus við allan rembing og uppgerð. Og þar liggur lykillinn að hamingjunni, trúi ég. Í stækjunni það er að segja. Lífið á að vera stækt. Og ef það er ekki stækt, gerðu það stækt!

Maceo Parker spilar aðallega funktónlist og gerði fyrst garðinn frægan í hljómsveit James Brown, sem kom funktónlistinni fyrst á kortið á sjöunda áratugnum. Eftir að hafa unnið með James Brown í nokkur ár stofnaði hann sína eigin hljómsveit sem hann leiddi og túraði lengi með. Síðar meir spilaði hann í hljómsveit Prince, bæði í stúdíói og á tónleikum. Orðið Funk á sér rætur í latínu og forn-frönsku og merkir í raun bara sterk eða vond (líkams)lykt, oft með neikvæða merkingu í hvítri menningu en jákvæða í menningu svartra í Bandaríkjunum, með vísun í að með dugnaði og erfiðisvinnu tónlistarmannsins (og tilheyrandi svita) verði afurðin góð. Tónlistin angar hreinlega af svitalykt. Svitastækju. Tónlistin er Funky. Tónlistin er stæk.


Maceo Parker og James Brown vel stækir á tónleikum
Oh Lordy Lord! Hah!

Gerðu það stækt. Make it Funky. Það er einmitt titilinn á einu lagi eftir James Brown sem Maceo hljóðritaði einnig sjálfur og tók iðulega á tónleikum. “Make it Funky” er jafnframt eini texti lagsins, endurtekinn út í hið óendanlega. Make it Funky. Make it Funky. Make it Funky. Eins og einhver spyrji röð spurninga sem Maceo svarar alltaf eins: Úr hvaða bolla á ég að drekka kaffið mitt? Make it Funky. Í hvaða fötum á ég að vera í dag? Make it Funky. Hvað á ég að elda í kvöld? Make it Funky. Hvernig á ég að innrétta íbúðina mína? Make it Funky. Hvernig á ég að lifa lífinu? Make it Funky.

En hvernig gerir maður kaffið, fötin, matinn, íbúðina og lífið í heild sinni stækt? Það er erfitt að segja en hver og einn þarf að finna sína stækju. Mér finnst gott að horfa og hlusta og hlusta reglulega á Maceo Parker og þegar kemur að því að tækla stóru málefnin spyr ég mig einfaldlega “Hvað myndi Maceo gera?”

Fyrir þau sem vilja kynna sér stækjuna hans Maceo betur mæli ég með að kíkja á þessa æðislega stæku tónleikaupptöku frá North Sea Jazz Festival í Hollandi 1995: 

https://www.youtube.com/watch?v=laXK5TNFn7s&list=RDlaXK5TNFn7s&start_radio=1

Kv, Björgvin
Innsent 14.8.2025, birt 14.8.2025

SMÁAUGLÝSING: ÓSKA EFTIR PENNAVIN/VINKONU


Hæhæ, datt í hug að þetta gæti verið góður vettvangur til þess að leita mér að pennavin :P Er einhver sem er að lesa þetta sem vill vera pennavinur minn? Það þætti mér gott. Skilyrði er að eiga góðan penna og bréfsefni. Óska eftir pennavin kannski í útlöndum eða bara á Íslandi. Það er skilyrði að setja bréfið í póst, ég myndi segja að það sé mjög mikilvægt að bréfið sé póstlagt. Annars er alls ekkert sérstakt við heila klabbið. Galdurinn í þessu öllu er nefnilega að fá innsiglað umslag, opna það, handleika bréfið. Tala nú ekki um eftirvæntinguna fyrir nýju bréfi. 

Aðeins um mig: Ég er 24 ára og hef gaman að því að skrifa og lesa og stundum að teikna líka. Ég á nokkra góða penna og fullt af pappír. Bréfin mega gjarnan vera nafnlaus, en það þætti mér betra ef að nafn einstaklingsins myndi þó fylgja með. Ég er að óska eftir einum pennavin en þeir mega þó vera 2, það skiptir mig ekki öllu máli. 

Ég bið áhugasama að senda mér skilaboð á: pennavinurthorhallsson@gmail.com

mbk, Pennavinur
Innsent 13.8.2025, birt 13.8.2025

BÓK Í DÓS FUNDUR 7. ÁGÚST


Jæja kæru vinir, það er komið að þessu.

Bókaklúbburinn geðþekki hélt 15. fundinn hátíðlegan (Lesstofu í dós(Grettisgötu)). Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson var á dagskránni og við gjörsamlega tættum hana í okkur (af ákefð). Hún var lesin af sumum við strendur Portúgals, af öðrum í Skerjagarði Stokkhólms og að lokum af honum Tómasi (van Oosterhout) á Blönduósi. Væntingar okkar voru miklar fyrir þessari merkilegu bók sem fékk einstaklega góða dóma í íslenskum fjölmiðlum (fimm stjörnur í Heimildinni). Heilt yfir vorum við bara nokkuð sáttir, þó að það hafi komið upp ágreiningur milli okkar um suma hluti. Við snæddum pítsu eins og karakterar sögunnar gerðu og af því að pítsa er góð á bragðið fjandinn hafi það.

Nú er ég forvitinn um hvaða fylgjendur okkar hafi lesið þessa bók, endilega látið okkur í fyrsta lagi vita hvort þið séuð Lifecore, Doomcore eða í svörtu stígvélunum. Og í seinna lagi hvað ykkur fannst um bókina.

Einkunnir:
Hugi(Svörtu stígvélin): 8
Tómas(Doomcore): 8.1
Ari(Doomcore): 7.4
Þórhallur(Lifecore): 5

Meðaleinkunn: 7

Næst lesum við bókina Autobiography of Red eftir Anne Carson.

https://www.instagram.com/bokidos/



Adíós
Bókaklúbburinn Bók í dós
Innsent 13.8.2025, birt 13.8.2025

ÍSLENSKIR LITIR


Ég er búin að vera að velta einu fyrir mér..... ég hef nefnilega tekið eftir svotlu. Svolítilli þróun.... Ég er búin að vera skoða marketpleis mikið upp á síðkastið, þar inn á má finna ágætan þverskurð af íslensku samfélagi og vitið ég tek bara mikið mark á því sem ég sé og les á marketpleis. En vitið svo hefur þetta ekkert með marketpleis að gera heldur almenna hegðun íslensks fólks. En alla vega ég sá þennan sófa þar í dag:




og það er svo sem ekkert að þessum sófa. Flottur sófi,  mhm, ég er sko ekkert að reyna að vera dónaleg, sjáið til.  Nema það svo les ég lýsinguna á þessum sófa:





...........og þarna set  ég nefnilega rækilega stórt spurningamerki:

Þessi sófi er náttúrulega aldrei grænn segi ég!!!!! Hann er í besta falli grár með grænum og brúnum undirtónum. W T F, segi ég nú bara. Allar manneskjur með augu sem virka sjá það. Hvaða vitfirring er það að lýsa þessum sófa sem grænum? Grænir sófar seljast ekkert betur á Íslandi heldur en gráir sófar. Þvert á móti!!! Íslenskur almenningur elskar sína gráu sófa. Ég veit um mörg rótgróin íslensk heimili með gráum sófum og ekki bara gráum sófum heldur gráu öllu sem hægt er að gera grátt grátt grátt. Íslensk alþýða er sjúk í grátt. Þannig af hverju, spyr maður sig, er verið að auglýsa þennan sófa sem grænan? Ég er með athyglisverða kenningu og hlustiði bara þið sem eruð ennþá með mér og fylgið. Já ég setti sko tvo og tvo saman í dag. Ég held að íslensk alþýða sé búin að þróast, að hún sé búin að samstilla augun, hún sér ekki lengur grátt heldur handan grámans. Hún sér núna bara litina bakvið gráa. Hún er komin á hærra plan hvað litafræði varðar. Þróaðari augu. Eins og fólkið í eyðiörkinni sem sér alls kyns útfærslur af gulum, þá sjá íslenskir heimilisrekendur milljón útfærslur af gráum. Og litirnir eru ljóslifandi. Þannig að ég spái því að á næstunni munir þú heyra Íslending kalla eftirfarandi liti þessum áhugaverðu nöfnum:

 
BLÁR
BLEIKUR
GULUR
en svo má vera að þetta sé bara mín eigins svartsýni og að ég megi bara steinhalda kjafti og kannski er ég bara alls ekkert næm fyrir litum heldur er ég bara kjáni. En ég mun alla vega vera að velta þessu fyrir mér og þið megið alveg gera það líka ef þið hafið áhuga á þvi.

kv. Katla Björk
Innsent 13.8.2025, birt 13.8.2025

PLATA VIKUNNAR: PANFLAUTUSNILLD


Hér með hef ég ákveðið að platan Inti-illimani 3 - Canto De Pueblos Andinos (söngvar Andesfjallaþjóðar) með hljómsveitinni Inti-Illimani. Hljómsveitin er frá Chile og nafn hljómsveitarinna Inti-Illimani þýðir sólarfjall. Um er að ræða huggulega þjóðlagatónlist. Tónar sem hlýja manni um hjartaræturnar, hún er fullkomin til að undirbúa okkur fyrir haustið. Svo hef ég aldrei heyrt svona fallegt panflautuspilerí. <3





kv. Katla Björk
Innsent 9.8.2025, birt 9.8.2025

BENELÚX BAULIÐ

Kæru krantverjar nær og fjær. Ég hef verið að velta fyrir mér ákveðnu fyrirbæri, ákveðnu hljóði. Hljóðið afmarkast við norðurhluta Evrópu en teygir anga sína stundum út fyrir heimasvæði sitt, jafnvel til Íslands. Hljóðið líkist kúabauli en hljóðgjafarnir eru yfirleitt karlmenn á aldrinum 18 til 30. Ég kynni til leiks: Benelúx Baulið™.Þetta skrifaði ég í mars seinastliðinn því ég var orðinn svo þreyttur á því að vakna á næturnar við öskrin í ungu Belgunum í Antwerpen. Nú er ég aftur kominn til Íslands og þetta er augljóslega ekki jafn algengt en er auðvitað til. Svona sem konsept. Ég var stöðugt að velta þessu fyrir mér þarna í Twerpinu, velta því fyrir mér hvað það var sem fékk þá til að baula eins og Bjarnastaðabeljurnar, því ég var að verða vitlaus rétt eins og þær. Kannski er þetta eitthvað primal, bara að framkalla eitthvað HLJÓÐ þegar aðrir tjáningarmátar reynast manni of flóknir. En merkilegast af öllu var það að baulin voru alltaf eins. Þeir framkölluðu allir sama hljóð, sömu tvær nótur. Ein nóta sem rann niður um tvíund eða þríund. DÖÖ-ÖÖ (eða [dɝɝ-ʌʌ] fyrir nördana). Auðvitað var þetta óþolandi en á sama tíma fannst mér þetta svo merkilegt. Og finnst enn! Svo látið mig vita þegar köllunin kemur til ykkar karlmenn á aldrinum 18 til 30, köllunin til þess að kalla, hrópa, gaula og baula eins og full fótboltabulla. Og pælið í því hvað það var sem fékk ykkur til að framkalla nákvæmlega þetta hljóð. Þetta er efni í rannsókn. Ég er að rannsaka.







Bauli Bjarnason
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025

AÐ DIFFRA SJÁLFIÐ


Ég hlakka til þess dags þegar sjálfið mitt verður í sinni hagstæðustu útfærslu. Hágildi sjálfs míns. Þegar ég diffra sjálfið mitt og og diffrið er núll. Það útilokar að vísu ekki að sjálfið sé í lággildi svo ég þarf að tvídiffra sjálfið og vona að á þeim tímapunkti sé tvídiffrið minna en núll. 

En er kannski að einhverju leyti betra að vera í lágpunkti en hápunkti? Þá veit ég alla vega að eftir lágpunktinn liggur leiðin upp, sem er betra en hitt. En svo er náttúrulega ekkert hægt að vita hvort sjálfið sé statt í allra hæsta hágildinu eða í staðbundnum hágildispunkti og eigi eitthvað betra eftir. Skiptir kannski aðallega máli að sjálfið sé á uppleið, frekar en á hæsta punkti? Er það ferðin en ekki áfangastaðurinn? Skiptir diffur sjálfsins meira máli en sjálfið sjálft? Og hvaða máli skiptir það að diffur sjálfs míns sé jákvætt ef samfélagsdiffrið er neikvætt?

Ef ég horfi til baka og fram á veg þá sé ég fram á að 7. mars 2027 verði dagurinn þar sem sjálfið mitt fer fyrst yfir meðaltalsgildi sitt yfir ævina og eigi góðan topp í kringum 37 ára aldurinn. Þegar ég verð 54 ára verður sjálfið mitt í sinni allra hagstæðustu útfærslu, nánar tiltekið 24. apríl árið 2050, með öðrum góðum (en þó ekki jafn góðum) toppi í kringum 68 áður en það tekur kröftuga dýfu með sínu lægsta lággildi við 74 ára aldurinn. Eftir það liggur leiðin upp og ég hygg að við andlát verði gæði sjálfsins sambærileg og í þau eru í dag.

En hvernig lítur hagstæðasta útfærsla sjálfsins út? Jú, ég býst við því að hagstæðasta sjálfið efist um sjálft sig um 25-30% minna en það gerir í dag, eigi 2-4 fleiri trúnaðarvini, þar af a.m.k. einn sem það kallar maka og hafi tekið þátt í að móta tilveru eins eða tveggja einstaklinga, alla vega félagslega en ef til vill líffræðilega líka. Hagstæðasta sjálfið mun vera stolt af fimm gjörðum fyrir hverja eina sem það skammast sín fyrir. Hagstæðasta sjálfið mun gera 48-53% færri gjörðir til að þóknast öðrum sjálfum árlega en það gerir í dag. Hagstæðasta sjálfið mun líta björtum augum til framtíðar en nokkuð kaldhæðnislega veit ekki að það mun aldrei ná sömu hæðum aftur því það er löngu hætt að hugsa um ástand eigin útfærslu. Það bara er.

Höfundur er sjálf með diffur stærra en núll á tíma t = núna
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025

© Krant 2025