Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

OPIÐ BRÉF TIL GÓÐA HIRÐISINS


Elsku Góði Hirðir á netinu

Af hverju læturðu svona? Af hverju læturðu eins og að það sem þú selur sé eitthvað annað og betra en það er? Ég veit að þú ert að selja drasl. Þú veist að þú ert að selja drasl. Ég veit að þú veist og þú veist að ég veit. Og ég er til í að kaupa drasl. Hef alltaf verið. Kertastjakar, bækur sem enginn vill, lampar. Svo ég tali nú ekki um allar myndavélarnar.

"Jura Impressa X50 – Hágæða sjálfvirk kaffivél fyrir fjölbreyttar kaffitegundir
Jura Impressa X50 er öflug og stílhrein sjálfvirk kaffivél sem hentar bæði fyrir heimili og vinnustaði.
Hún býður upp á fjölbreyttar kaffitegundir með einum hnappi og er með tvöföldu stútakerfi, froðustút og stillanlegum hnöppum fyrir nákvæma stjórn á hverri bollu"

Þú þarft ekki að setja draslið í umbúðir. Ég sé um að sannfæra sjálfan mig og þarf bara að vita tvennt: Framleiðandi + módelnúmer og hvort tækið virki ef við á. Elsku GH ég bið ekki um meira. Ég vil ekki að þú segir mér að 20 ára gömul takkakaffivél geti stjórnað hverri bollu nákvæmlega því ég veit að hún gerir það ekki. Leyfðu mér að dæma hvort hún sé hentug fyrir heimili, vinnustaði, hvort tveggja eða hvorugt. Þú þarft ekki að reyna svona mikið á þig. Nógu mikið er á þig lagt elsku allra besti GH.

"Guitar Hero II er rokktónlistarleikur sem býður upp á adrenalínfulla spilun með gítargræju fyrir PlayStation 2.
Forsíðan sýnir tvo teiknaða rokkara í rauðum og svörtum fötum með rafmagnsgítara, í anda klassísks pönk og rokkstíls."

Herra Hirðir. Allir sem gætu haft áhuga á að kaupa Guitar Hero vita nú þegar hvað Guitar Hero II er og hafa ekki gagn af því að vita í orðum hvernig forsíðan lítur út. Það er enginn sem auglýsir tölvuleiki á þennan hátt. Þú hlýtur að vita það.

"Dunlop Biotec 500-25 er létt og stöðugt tennisracket sem hentar sérstaklega vel fyrir unga leikmenn og byrjendur.
Með sterkri títanbyggingu og glæsilegu gulu og svörtu útliti, sameinar það útlitshönnun atvinnumanna með notagildi fyrir daglega æfingu.
Fullkomið fyrir börn og unglinga sem vilja þróa leik sinn með áreiðanlegu og stílhreinu tæki."

Þú, af öllum, veist best að tennisspaði sem kostar 1.750 krónur á ekki skilið svona lýsingu. Dunlop Biotec 500-25 - svartur/gulur - virkar. Guitar Hero II á PS2 - virkar. Jura Impressa XF50 takkakaffivél - virkar. Þú þarft ekki að segja meira. Ég fylli í eyðurnar. Það er hluti af fjársjóðsleitinni.

Góði Hirðir á netinu, sparaðu orðin þín. Og þegar þú notar þau, notaðu þín eigin orð, ekki gervigreindarorð. Plís. Fyrir mannkynið. Að eilífu. Amen.

Virðingarfyllst, Björgvin
Innsent 18.8.2025, birt 19.8.2025