Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

MATARVENJUR Í RÚMENÍU


Fyrsta daginn fengu BE og VS gjöf frá ókunnuri konu: Krumpuplastpoki með kíví og marmaraköku. Konan talaði litla ensku og þegar þau fúlsuðu við pokanum með látbragði, útskýrði konan „it‘s for the dead, it‘s for the dead“. Tóninn í röddinni gerði það skýrt að nú væri sko ekki í boði að neita pokanum. Þau tóku við pokanum en leist ekkert sérstaklega á innihald hans. Seinna um daginn spurðu BE og VS rúmensku vini sína út í atvikið og þau útskýrðu að þetta væri í raun ekkert undarlegt heldur rúmensk hefð. Þegar einhver deyr ætti fjölskylda viðkomandi að gefa ókunnugum mat. Ég fékk enga nánari útskýringu á þessari hefð og sé núna eftir, því ég finn lítið um hana á netinu. Eina sem ég fann sem virtist eiga við var útskýring á hugtakinu Pomană. Ef það er rétt skilið hjá mér, þá segir þjóðtrúin að þeir dauðu séu aldrei alveg dauðir heldur lifi áfram í aðskildum en nálægum heimi. Í þessu framhaldslífi eru þeir dauðu með þarfir og langanir alveg eins og lifandi fólk. Til að uppfylla þarfir þeirra dauðu getur verið mikilvægt að úthluta eða gefa eigur þeirra, svo þær fylgi þeim í framhaldslífið, en einnig á lifandi fólk að deila á milli sín mat og drykk. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvaða áhrif þessi plastpoki með marmarakökusneið og kíví átti að hafa á heim hinna dauðu en hljómar eins og stemningshefð. 


Talandi um mat fyrir dauða, þá kynntist ég einnig kólíva. Sætur réttur sem er borin fram í minningarathöfnum rétttrúnaðarkirkjunnar, meðal annars jarðaförum. Kakan er búin til úr soðnum hveiti kornum sem gerð eru sæt með hunangi eða sykri. Í réttinn má svo setja alls konar þurrkaða ávexti eða hnetur og krydda með kanil. Rúmenar skreyta svo gjarnan kökuna með glæsilegum kakóduftskrossi. Sumir rétttrúnaðarsöfnuðir eru með einn ákveðinn einstakling sem sér um kólívugerðina, það þarf að vanda til verka enda mögulegt að hveitikornin gerjist. Rúmenar taka þessari hefð alvarlega og þeim er ekkert sérlega vel við að rétturinn sé borinn fram ef tilefnið er ekki viðeigandi.



Kolíva (myndir af google)
 
En nú að matarvenjum ótengdum dauða. Við TVO fórum á nokkra tradisjonal veitingastaði og fengu okkur eitthvað hefðbundið. Réttirnir áttu það flestir sameiginlegt að vera bornir fram með hvelfingu af sýrðum rjóma og slummu af pólentu. Ég hef aldrei á ævi minni borðað jafn mikið af þessu tvennu. Réttirnir voru flestir úr kjöti en stundum var hægt að fá grænmetisátgáfur af þeim. Við smökkuðum sarmale, súrsað hvítkál vafið utan um hrísgrjón og kjöt eða sveppi. Rúmenar eru mikil súpuþjóð og á veitingastöðunum var boðið upp fjölbreytt úrval af súpum. Ég gleymdi eiginlega alveg að smakka þær, ég er ekki með mjög stóran súpumaga. Eftirréttirnir voru ekki af verri endanum og ég kunni virkilega að meta að þeir voru aldrei of sætir Fyrsta kvöldið fengum við papanasi! Djúpsteikt deig, (ekki ólíkt ástapungum), nema fyllt af kotasælu og borið fram með sýrðum rjóma og kirsuberjasultu. Við fengum okkur líka stundum Kanilgorminn: Kurtoskalacs. Ímyndið ykkur kanilsnúð sem búið er að breyta í gorm. Sérstakasti eftirrétturinn sem við smökkuðum var einhvurslags pastakaka með sítrónubragði. Ég veit ekki alveg með hana, ég fýla sítrónudeserta en áferðin af pastanu ruglaði soldið í mér.


Sarmale með sveppafyllingu


Á matseðlum í Rúmeníu er allt gefið upp í grömmum svo það fari ekki á milli mála hvað skammtastærðirnar eru yfirgengilegar. Ég borðaði rosa mikið af kolvetnum og mjólkurvörum í þessari ferð en alls ekki nóg af fersku grænmeti. Góð regla fyrir Rúmeníufara: Ef maður hefur áhuga á að fá grænmeti með matnum, þá þarf helst að panta það til hliðar !Það fylgir aldrei með! 

Í Rúmeníu drukkum við aðallega bjór og æðislega fjallavatnið þeirra, en það fór ekki á milli mála að þjóðardrykkurinn var kók í plasti. Gaman þótti mér að sjá uppstrílaðan þjón með hvíta svuntu skenkja kóki úr tveggjalítra plastflösku í glös á fæti. 

Kurtoskalacs eða kanilgormur

Ég hef það ekki lengra, takk fyrir lesturinn!



Katla Björk Gunnarsdóttir, áhugamaður um mat og matarvenjur
Innsent 3.4.2025, birt 3.4.2025

© Krant 2025