Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

LJÓÐ DAGSINS ÞRIÐJA APRÍL TVÖÞÚSUNDTUTTUGUOGFIMM



Seinustu mínútur lífs míns
minna helst á kökukefli
sem snýst og fletur, fer fram og til baka og snýst
og fletur

Dagurinn er gulur
og glugginn og augnlokin mín eru gegnsýrð
eins og vanalega
Veggurinn hallar sér upp að mér
Eiríkur fylgist með mér deyja
                 fylgist með mér, eins og vanalega
                 (öfundar mig eins og vanalega)

Hann talar, gerir hlé á milli orðanna
segir ástin mín alltaf tvisvar í röð
segir Karólína með spænskum heim
hægt
talar tungum
talar um fiskana frammi á gangi
og fiskana í frystinum
og fiskana í sjónum
neitar að segja ævi
neitar að segja börnin
neitar að minnast á húðina mína
Úti heyrast skrrrrrruðningar
drunur
og önnur hljóð
blossar, eins og vanalega
Vitund mín hallar sér upp að veggnum
ég hlæ inni í mér
bíð eftir knúsi
bíð eftir orðinu
bíð þangað til veröldin verður að gúmmíi
bíð þangað til loksins.....:

           „Það þýðir ekkert að bíða svona, krúttið mitt,“

Ég veit strax að þetta er æðri röddin því hún er svo stór, og ég veit líka alveg hvaðan hún er að berast!

Ég rís upp frá veggnum sem missir jafnvægi
og fellur oná vitund mína
og oná Eirík sem fær gat á hausinn
ég mjaka mér nær glugganum
segi hasta la vista við Eirík
segi halló við guluna
læt mig detta inn í hana
og syndi í átt að röddinni


Beibí Katla Beibí Björk
Innsent 3.4.2025, birt 3.4.2025