Herra O:
Kæru lesendur, ég er leiður. Árið er tvö hundruð áttatíu og níu í hundaárum og ég, herra O. kann ekki að skrifa leiðara. Þessi staðreynd gerir mig afskaplega leiðan og afskaplega sorgmæddan líka. Einu sinni kunni ég að skrifa leiðara en það er löngu liðin tíð. Síðan þá hefur skriffinnskuveldi mitt fallið eins og spilaborg í sunnangolu. Ó, æ, æi, ó, æ, ó hvað, ó hvað get ég gert til að endurheimta talentið. Óóóó, bara ef það væri einhver sem gæti hjálpað mér.
Draugur íslenskrar nýfrjálshyggju:
Höfðingi! Viðurkenndu eðli þitt, blaðsnifsið getur beðið, þú hefur hvurt sem er orðið of tær. Viðurkenndu eðli þitt, tilkynntu komu þína! Einkavæddu hjartað!
Smáauglýsing:
Til sölu: Ritstjórahjarta. Afburðagott blátt hjarta fæst hæstbjóðanda. Slær 45 til 160 sinnum á mínútu. Ástand: eins og ónotað.
Herra O:
En hvað er eðli mitt? Hver er ég? Hvar er ég? Ég veit að ég sit í þessum skrifstofustól, ég veit að ég heiti herra O. Ég veit að ég á ekki að vera hérna. Það er eins og það vanti eitthvað. Ef að ég legg í stutta rannsókn á sjálfum mér þá verður mér ljóst að ég hef ekki tilfinningu fyrir neinu handan við þessa skrifstofu. Eðli mitt hlýtur þá að vera að: sitja við þessa hér tölvu, í þessum hér stól og skrifa þennan hér leiðara.
Draugur íslenskrar frjálshyggju:
Sko, þetta gat hann. Hann gat viðurkennt eðli sitt. Það sem fylgir því vanalega að viðurkenna eigin eðli er að reyna að skilja það og skilgreina. Aðeins eftir að maður skilur eðli sitt getur maður upphaft það. En hvernig skilgreinir maður eitthvað sem maður skilur ekki? Nietzsche sagði einu sinni: „Ég skil ekki neitt.“
Herra O:
Ég skil heldur ekki neitt, en það sem ég hef yfir Nietzsche er viðskiptavit. Ég er afburða góður viðskiptamaður. Ég er efalaust einn gáfaðasti fúskari og braskari á landinu. Nefndu mann með betri viðskiptavit en ég. Af hverju þarf ég að skilja þegar ég get fúskað?
Smáauglýsing:
Til sölu: Talandi draugur, frekar leiðinlegur en getur hjálpað þér að skilgreina eigin eðli. Fæst gegn vægu gjaldi. Ástand: gegnsær, erfitt að meta.
Hæstbjóðandi:
Sæll, ég ætla að fá hjartað og drauginn
Herra O:
Sjálfsagt, það gera þá þrjátíu únsur af skriffinskutalenti (til að skrifa leiðara).
Intermission
Nýr leiðari leiðarans:
Ritstjóri herra O. skrifar úr skrifstofu sinni í Hádegismóum.
Kæru lesendur, tölum aðeins um samúð. Í fyrsta skipti í sögunni er samúð orðin alþjóðleg. Ef að þú færir 150 ár aftur í tímann í íslenska torbæinn var fólk ekki að velta fyrir sér hlutum sem voru að gerast hinum megin á hnettinum. Það var engin samúð eða samstaða, bara dugnaður! Við höfum það svo gott hérna á Íslandi. Hvernig væri að hætta að lesa blöðin? Þjáningunni mun aldrei linna, ekki á meðan draugar eru til. Hvaða máli skiptir samúð? Það er manndómsvígsla að komast að því að heimurinn er vondur grimmur staður, fólk dílar síðan við þann veruleika á sinn hátt. Sumir kenna öðrum um, eða einhverjum kerfum. Aðrir lifa í afneitun, harðneita því að eitthvað sé að. Það að ég sé með beint streymi frá átakasvæði hinum megin í heiminum þýðir nákvæmlega ekki neitt fyrir mig. Af hverju ekki spyrðu? Nú það er af því að ég seldi hjartað mitt áðan. Ég er allavega ekki lengur leiður, það er svona helsti kosturinn. Samúð fyrir íslendinga er einfaldlega bara úrelt. Við höfum það svo sjúklega gott. Kæru lesendur, ég er ekki lengur leiður.
Eftirmáli
Prófessor Gunnfríður Vídalín:
Við rannsóknir mínar í Lundarháskóla höfum ég og samstarfsmenn mínir komist að alveg hreint út sagt ótrúlegum niðurstöðum. Davíð Oddsson hefur í raun aldrei verið til. Hann var fabúlering nýfrjálshyggjumanna til þess að sölsa undir sig völd í íslenskum stjórnmálum. Draugar eru til og enginn er öruggur fyrir orðspjótum þeirra. Samúð er svo sannarlega alþjóðleg en okkur ber siðferðisleg skylda að hafa samúð fyrir þeim sem minna mega sín. Að lokum þá ber mér sú skylda að vara fólk við því að stunda viðskipti, þau ganga engan veginn upp. Best að sleppa þeim bara alveg.
Eftirmáli eftirmála
Draugur íslenskrar frjálshyggju:
„Vá en glataður endir á annars ágætum leiðum leiðara.“
mbk,
Háttvirtur Krantstjóri, Rýtingur Gúndólfsson
Innsent 1.9.2025, birt 1.9.2025