Kæru lesendur bloggsins, ég dó í þarsíðustu viku. Nú er ég í handanheiminum og fann mig knúinn til að láta vita af mér enda með það á tilfinningunni að margir af mínum ástvinum velti fyrir sér hvernig ég hafi það. Héðan er allt gott að frétta og lífið gengur sinn vanagang. Í raun er flest allt mjög svipað, hér eru allir vinir mínir og fjölskylda, meira að segja pabbi minn sem lést ykkar megin fyrir tveimur árum síðan. Það eina er kannski bara að hér heitir Davíð Oddsson einhverra hluta vegna Avíð Doddsson og Skúli Mogensen heitir Múgi Skólensen. Annað er eins. Hvað varðar fólk a.m.k. Ef til vill á eitthvað fleira eftir að koma í ljós.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er reyndar eitthvað breyttur. Ég fór þangað um helgina og byrjaði eins og vera ber í húsdýrahluta garðsins. Ég skoðaði selina og refina; hesta, kýr og svín; hænur og gæsir og fór svo yfir brúna í fjölskyldugarðinn. Þá er víst búið að taka niður öll leiktækin. Fallturninn og ökuskólinn eru farin en í staðinn eru fjölskyldur í búrum. Þarna eru alls konar fjölskyldur: kjarnafjölskyldur, vanvirkar fjölskyldur, einstæðir foreldrar með börn, barnlausar fjölskyldur, stórar fjölskyldur, sundraðar fjölskyldur og miklu fleira. Mér fannst þetta skrítið en þær virtust ágætlega á sig komnar og vanhagaði um lítið. En ég saknaði klessubátanna.
Ég þurfti að fara til sýslumannsins í gær til að sækja um nafnskírteini. Hann tók vel á móti mér og gaf sér góðan tíma til að ræða við mig þó hann sé bara einn að sinna þessu starfi og eflaust margir að bíða eftir þjónustu hans. En hann gaf mér kaffi úr nýju Sage Barista Espresso vélinni sinni og rabbaði við mig um dauðann eftir lífið. Á leiðinni heim gekk ég fram hjá Útlendingastofnun en þar var löng röð út úr dyrum. Hér hefur þá lítið breyst hugsaði ég og gaf mig á tal við einn sem beið í röðinni. Sá hafði þó löngu fengið farsæla úrlausn sinna mála en fannst svo gott andrúmsloft í Útlendingastofnun og þægilegt að tala við starfsfólkið að hann beið glaður í röð eftir því að fá að kíkja í kaffi. Þetta gladdi mig og ég hélt heim.
Ég er búinn að skrifa og senda inn nokkrar greinar í Krant hérna meginn. Einhverra hluta vegna er Krant talsvert stærra fyrirbæri hérna og lesið á hverju götuhorni og hefur jafnvel náð útbreiðslu út fyrir landsteinana. Greinunum hefur verið vel tekið og ég hef verið orðaður við Krantverðlaunin, sem mér er sagt að séu eins konar Pulitzer verðlaun handanheima. Ég ætlaði að senda eina af greinunum yfir til ykkar en var sagt að milliheimatvíbirtingar væru stranglega bannaðar. Ég verð því að láta þessa orðsendingu duga.
Mér var boðið á ball sem fer fram núna á föstudaginn næstkomandi. Rósaballið er það kallað, að því er mér best skilst vegna þess að rósablöðum er dreift á gólfið áður en dansleikurinn hefst. Einhver stelpa bauð mér með sér þó ég þekki hana í raun ekki neitt. Ég held að hún sé skotin í mér. Ég man eftir að hafa séð hana þeyta skífum á einhverjum skemmtistaðnum í Reykjavík áður en ég dó. Mér fannst hún svöl.
Dauðinn hefur ekki verið mér jafn erfiður og ég bjóst við, í raun er dauðinn bara örlítið skemmtilegri útgáfa af lífinu. Eins og lífið hafi batnað um 8%. Munurinn á lífi og dauða er líklega ekki nema 8% svo ef þið finnið leið til að bæta líf ykkar um 8% þá vitið þið hvernig það er að deyja.
höfundur er dáinn
Innsent 31.10.2025, birt 2.11.2025