Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

KONKLEIF


Hæ núna eru kardínálarnir læstir inn í Sixtínsku kapellunni (sem er kennd við páfann Sixtus IV ekki töluna sextán). Ég er mikið búin að vera að tala um þetta svo kallaða konkleif eða conclave eins og það heitir á ensku og latínu. Þó orðið sé hentugt er það nokkuð óþjált á íslensku og ég er svona að velta fyrir mér hver besta leiðin sé til að þýða það.




Þegar ég spyr snöruna mina svarar hún mér að conclave geti þýtt:

  1. einkafundur, leynifundur. 
  2. kardínálasamkoma til að velja páfa, páfakjörsfundur
  3. páfakjörssalurinn í páfagarði.

Kosturinn við útlenska orðið er að það getur bæði í senn átt við fundinn sjálfan og salinn sem hýsir viðburðinn. Sumsé maður getur bæði sagt að kardínálarnir eru mættir inn í “konkleifið” og að “konkleifið” sé hafið. 

Á latínu þýðir con með og clave lykil. Með-lykli. Con-clave. Viðeigandi og ágætlega dramatísk lýsing á fundinum sem gerist bakvið luktar dyr. Luktan? Væri kannski dramatísk lýsing á viðburðinum. Nú hefst luktan! Eða lokan! Lyklafundur, lyklaþing, lyklamót hljómar of mikið eins og samkoman fjalli um lykla…. Slagbrandur gæti verið eitthvað.

Luktan og lokan gætu nú átt við sjálfan salinn en hin orðin gætu einungis átt við samkomuna. Þá gæti maður talað um Slagbrandssalinn. Aflokan var mér líka að detta í hug. Kardínálaaflokan er kannski best hingað til og gæti verið notað bæði yfir salinn og viðburðinn.

Ég er svoldið spennt fyrir því að horfa á bíómyndina Conclave. Hvað finnst fólki um hana? Það er búið að vera mikið Ralph Fiennes (hr. Voldemort) æði upp á síðkastið hérna í Antwerpen, við erum sumsé búin að horfa á tvær myndir með honum: Red dragon og In Bruges.

Okkur þótti In Bruges frábær og eftir áhorf urðum við enn spenntari fyrir mögulegri ferð til Bruges (Brugge… til forna stundum nefnd Bryggja á íslensku). Okkur finnst Colin Farrell sætur.
Red dragon var líka alveg fyndin en algjör steik. Hún er undanfari myndarinnar Silence of the lambs, klárlega ekki jafngóð en spennandi William Blake reffar sbr. tattúið á baki persónu Ralph Fiennes. Gregatattú :-)





Meira um páfann og svoleiðis skemmtilegt. Vissu þið að verðir páfans eru svissneskir? Veit ekki alveg hvaða gæðastimpill það er fyrir verði. Eru svissnesku genin betur til þess fallin að verja? Og búningarnir…. Appelsínugulir, rauðir og bláir, sérsniðnir á hvern vörð og vega samanlagt 3,6 kg. Svo mega þeir ekki selja búninginn að starfi loknu heldur mega þeir eiga hann í fimm ár en verða svo að grafa hann eða gefa Swiss guard félagasamtökunum.  



Engar fleiri pælingar í bili. Gleðilegan slagbrand!

kv. Katla IV Gunnarsdóttir
Innsent 8.5.2025, birt 8.5.2025

© Krant 2025