Ég hef mikinn áhuga á hönnun, enda að læra vöruhönnun, og þar með talinni fatatísku. Ég fylgist svo sem ekki beint með nýjustu vendingum á tískupöllunum í París en ég tel mig hafa ágætis smekk, þokkalega persónulegan stíl, hef gaman af því að klæða mig upp og fylgist með því sem ég sé gerast í kringum mig. Ég fylgist heldur ekki mikið með tískuáhrifavöldum á netinu, finnst þeir ekki hafa margt merkilegt að segja, að undanskilinni einni, að nafninu Ash Callaghan. Hún getur þó varla talist áhrifavaldur í hefðbundnum skilningi internetsins en hún heldur úti samnefndri YouTube rás þar sem hún greinir á virkilega skemmtilegan hátt hina ýmsu tískustrauma, gefur góð ráð án þess að segja þér nákvæmlega hvaða flík þú átt að kaupa og er oftast með raunverulega áhugaverða vinkla sem alltaf ná að koma mér á óvart. Fáum tekst jafn oft að planta hugsuninni “Huh, ég hafði ekki pælt í því” í hausinn á mér og sá efasemdafræjum um það sem ég hafði áður talið “satt”. Ég mæli með að lesendur kíki á hana.
Þó hún hafi ekki fundið það upp sjálf er
The Sauce eitt af þeim hugtökum sem Ash Callaghan talar mikið, eða einfaldlega
Sósan. Munurinn á að vera vel klæddur og mjög vel klæddur liggur í sósunni. Þið sjáið hvert ég er að fara með þetta núna. Sósan í þessu samhengi er hugtak sem ómögulegt er að skilgreina, en það mætti segja að það sé eitthvað sem lyftir dressinu (mín þýðing á hugtakinu outfit) skör ofar, einhver orka sem lætur þann sem klæðist því ljóma. Þú getur sagt að dressið sé með sósuna en ef til vill er betra að tala um að sá sem klæðist dressinu sé með sósuna, sósan býr einhvern veginn í manneskjunni, frekar en fötunum. Sósan býr í þessum “persónulega stíl” sem oft er talað um, sem breytist ekki svo glatt og þegar hann þróast gerir hann það a.m.k. ekki í beinum takt við tískustrauma. Og engar tvær sósur eru eins.