Senda inn efni listanes.office@gmail.com
KRANT

Annað tölublað er í vinnslu, endilega sendið inn efni fyrir þriðja tölublað á listanes.office@gmail.com 
Tökum við öllu efni, ljóðum, greinum, pælingum, bloggpóstum, myndum o.s.frv.
Upplýsingar
Slembigrein

GREINARGREININGARGREIN #1 ÞVERFAGLEG GREINING Á NÝJUSTU MÁLSHÆTTIRNIR EFTIR TÓMAS MÁL-SÁTTAN OG KÖTLU MÁL-HATT


Forvitnileg grein birtist á vefriti þessu þann 28. maí síðastliðin. Ber hún heitið Nýjustu málshættirnir og eru höfundar hennar Tómas Mál-sáttur og Katla Máls-hattur, forvitnilegt. Þar er varpað fram fjórtán nýjum málsháttum, hver öðrum forv undarlegri. Höfundar halda því fram að málshættirnir fjórtán hafi „fundist” í þriðja bindi Náðarbókar Hildigerðar Þ. Ljótsdóttur, málsháttargerðar- og spákonu. Við nánari athugun reynist þetta undarl forvitnileg staðhæfing. Á leitir.is skilar uppfletningin Náðarbók engum niðurstöðum og verður því að draga í efa að slíkt rit sé yfir höfuð til og hvað þá í þremur bindum. Grunsemd þessi stigmagnast eftir viðkomu á islendingabok.is þar sem leitin „Hildigerður Ljótsdóttir” skilar álíka grunsamlegum niðurstöðum: 



Að þessu öllu sögðu þá standa málshættir ekki og falla með tilvist höfundar síns, í raun þvert á móti. Þó spurningamerki megi setja við heimildavinnu og heiðarleika höfunda áðurnefndrar greinar þá þarf því engin slík merki að setja við málshættina sjálfa sem þar eru útlistaðir. Efni þeirra er þó forv skrítið og boðskapurinn torskilinn. Því hef ég tekið að mér að gera heiðarlega tilraun til akademískra útskýringa á þeim, alþýðunnar til ölmusu. 

  1. Kýrin mjólkar ekki manninn

    Hér er vísað til aldagamallar hefðar mannskeppnunar að „mjólka” kýr (bos taurus). Er þessi iðja skýr myndræn framsetning á stigveldi náttúrunnar. Í ofangreindum málshætti er stigveldinu snúið á haus með spaugsömum hætti til að minna á tilvist þess. 

    Starfsmaður: Ertu til í að þrífa klósettin á eftir?
    Yfirmaður: Afhverju biður þú mig um að gera það? Ég er yfirmaður þinn.
    Starfsmaður: Já, ég er bara upptekinn.
    Yfirmaður: Það skiptir bara engu máli, kýrin mjólkar ekki manninn.

  2. Brjóst eru sjaldan brókuð yfir mitti

    Í bókstaflegri túlkun er málsháttur tvö rökfræðilegs eðlis. Brjóst eru sjaldan brókuð, punktur. Þar af leiðandi eru brjóst einnig sjaldan brókuð yfir mitti. Til einföldunar getum við sett málsháttinn upp sem rökfræðilega formúlu:

    X (brjóst) < Y (brókuð). Þar af leiðandi: X<Y+y (yfir mitti)

    A: Ég hef aldrei séð hund í Nike air max 95 skóm.
    B: Brjóst eru sjaldan brókuð yfir mitti, hundar ganga ekki í skóm.

    En ef við leyfum okkur að túlka hugtökin „brók” og „mitti” með víðari hætti öðlast málshátturinn aðra merkingu. Í þeirri túlkun er brókin ekki aðeins undirbuxur heldur undirföt í víðum skilningi og mitti ekki einskorðað við eiginlegt mitti líkamans heldur almenna miðju einhvers. Þegar það er gert birtist okkur fyrir sjónum kunnuglegt fyrirbæri, hinn sígildi brjóstahaldari. Semsagt: Sjaldan hylja brjóstahaldarar (brókin) meir en neðri helming brjóstanna (upp að mitti). Málshættinum er því ætlað að benda á að frum-tilgangur einhvers fyrirbæris sé misskilinn. Frum-tilgangur brjóstahaldara er falinn í nafninu: halda brjóstum í sessi, brjósthafa til þæginda. Eiginleiki brjóstahaldara að hylja brjóst er fylgi-tilgangur og skiptir því ekki öllu máli að honum sé fyllilega framfylgt með því að láta umræddan haldara „bróka” brjóst til lengdar, „yfir mitti”. 

    A: Þetta meðal er svo vont á bragðið.
    B: Brjóst eru sjaldan brókuð yfir mitti.

  3. Gull er manns kæfa

    Hér er átt við að ekkert eigi að eðli til að skilja gull og kæfu að í verðleikum fyrir mönnum. Gull og kæfa séu einfaldlega tveir hlutir sem ekkert hafi upp á sig að bera saman. Kallast þessi hugsunarháttur egalítaríanismi (e. egalitarianism) og á einkum við um samanburð manna. Allir menn hafi jafnan verðleika og siðferðisstöðu að grundvelli, hvort sem þeir séu „gull” eða „kæfa”. 

    A: Hvort myndiru frekar drepa þrjá vonda menn eða einn góðan mann?
    B: Einn mann, gull er manns kæfa.

  4. Báran slítur ekki steininn heldur strokar brókin strandir

    Þá aftur að rökfræði, í þetta skiptið rökvillu. Málsháttur fjögur snýr að afvegaleiðslu:
    X ≠ Y því Z = Þ
    Það að brókin stroki strandir segir ekkert til um það hvort báran kunni að, eða kunni ekki að slíta steinin. Málshátturinn er því notaður í hæðni.

    A: Hann er enginn barnaperri, mamma hans vinnur með frænda mínum.
    B: og? Báran slítur ekki steininn heldur strokar brókin strandir. (með hæðnistón)

  5. Eigandinn er ekki sá sem andann eygir

    Best er að átta sig á málshætti fimm með því að gera sér grein fyrir leikendum hans.
    (1) Sá sem andann eygir = sá sem skynjar og (2) Eigandinn = sá sem skynjaður er. Með öðrum orðum er það ekki einstaklingurinn (2) sem er í kjörstöðu að leggja mat á sjálfan sig heldur þeir sem „sjá hann” (1). „Andinn” þinn er aðeins sýnilegur öðrum.

    A: Það er svo fyndið hvað Jón heldur að hann sé góður gæi.
    B: Já, eigandinn er ekki sá sem andann eygir.

  6. Vitur er sá sem vegar nesti

    Hér er boðskapurinn tiltölulega auðskilinn. Viturlegt er að sjá til þess að efniviður/innviðir séu nægilegir áður en hafist er handa til notkunar á þeim.

    A: Hefurðu tekið eftir því að Jón kíkir alltaf á heimabankan sinn áður en hann kaupir sér bjór?
    B: Vitur er sá sem vegar nesti.

  7. Barnið vex kex en mjólkina kekkir

    Ólíkt fyrri málsháttum er málsháttur sjö merkingarlaus. Hann er hrognamál (e. gibberish) og er því notaður af einstaklingum sem hafa ekkert gáfulegra að segja.

    A: Hvað finnst þér um hugmyndir Heideggers um sjálfið?
    B: mmm… barnið vex kex en mjólkina kekkir.

  8. Stundum syngur fuglinn falskar en frúin

    Málsháttur átta svipar sumpartinn til eilítið þekktari málsháttar: Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Nema hvað að nú er krosstréð fugl og andstæðum þætti skautað við, málshátturinn er orðinn tvíeggja. Í þessari endurbættu útgáfu er ekki aðeins gefið í skyn að krosstré geti brugðist, heldur einnig að önnur tré geti enst á við krosstré. Þ.e.a.s. (1) fugl getur í sumum tilfellum klikkað söngur sinn svo verr hljómi en óbreytt mennsk frú og (2) umrædd frú getur í sumum tilfellum sungið svo vel að jafnvel fugl hljómi falskur í samanburði. 

    A: Sástu að Manchester United tapaði fyrir Grimsby í gær? Ótrúlegt.
    B: Já, stundum syngur fuglinn falskar en frúin.

  9. Einn biður tveimur heim

    Túlkun undirritaðs á málshætti níu ræðst á kenningu minni um að hér sé um prentvillu að ræða, að málshátturinn eigi að vera: einn býður tveimur heim. Þ.e.a.s. að um sé að ræða sögnina að bjóða en ekki sögnina að biðja. Reynist þetta rétt metið má túlka málsháttinn sem vísun í svokölluð snjóboltaáhrif. Þegar eitt lítið leiðir til annars, sem leiðir til annars o.s.frv. og verður að lokum að e-u stóru. Þessi þankagangur hefur einkum verið settur í samhengi við byltingar. Byltingar geti hafist á einum sem sannfærir tvo, sem sjálfir sannfæra aðra fjóra o.s.frv. Eða eins heimspekingurinn Ralph Waldo Emerson sagði: „Hver bylting var fyrst um sinn hugsun eins manns”

    A: Við munum aldrei geta haft nein merkingarbær áhrif á heiminn, við erum bara tveir gaurar á Íslandi.
    B: Einn býður tveimur heim.

  10. Ekki skaltu kenna skátum um eigin músagang

    Músagangur getur verið notaður sem myndmál yfir marga litla hluti sem koma fram í einu og erfitt er að hafa stjórn á. Þegar hugtakið er skoðað í þessu samhengi er hægt að líta á „músagang skáta” einfaldlega sem vísun til viðveru þeirra á götum úti, enda eru þeir flestir í smærri kantinum og margir þess eðlis að erfitt er að hafa hemil á þeim. Maður eigi þó ekki að pirra sig á músagangi þessum þar sem sjálft atferli þeirra er af hinu góða, þeir gera góðverk.

    A: Það er svo mikill hávaði í þessum sjúkrabíl.
    B: Ekki skaltu kenna skátum um eigin músagang.

  11. Blautar varir kyssa blaut bein í myrkri

    Þetta er í raun ljóðlína fremur en málsháttur og verður því ekki greindur sem slíkur.

  12. Kápan klæðir frakkann mann

    Hér er um saklaust orðagrín að ræða. Ekki er talað um frakkan mann heldur frakkann mann (e. overcoat man). Verður ekki gefið dæmi um notkun „málsháttarins” þar sem ekkert slíkt dæmi er til. 

  13. Snöggum snigli fylgir athygli

    Málsháttur þrettán er fremur skýr, sniglar eiga að hreyfast hægt. Hægur snigill fer í gegnum daginn og veginn án eftirtektar á meðan hraður snigill myndi nær hvergi geta farið án þess að upp vakni spurningar hjá öllum þeim sem líta hann augum. Snigill sem ferðast hratt er grunsamlegur.

    Bankaræningi A: Ég ætla að kaupa mér sportbíl þegar þetta er búið.
    Bankaræningi B: Það myndi ég ekki gera, snöggum snigli fylgir athygli.

  14. Mig og fleirum ýmist vantar

    Fjórtánda og síðasta málshættinum er ætlað að benda á samhengi. Þú ert ekki sá eini sem eitthvað vantar, öllum vantar eitthvað og sumum vantar sitt meira en þig vantar þitt. Svipar hann því í notkun til sígildrar speki: Hver hefur sinn djöful að draga. Munurinn er sá að hinn sígildi bendir á andlega bresti eintaklingsins en hinn nýi á veraldlega eða efnislega bresti. 

    A: Ugh, ég er orðinn svo leiður á að vera með þennan ógeðslega iphone 6+ síma. Allir vinir mínir eiga iphone 12.
    B: Jájá, mig og fleirum ýmist vantar.


Eftir að hafa lokið greiningu minni á málsháttunum fjórtán tel ég rétt að útlista þá þeirra er ég til tilbúna til almennrar notkunar, þá er krefjast eilítillar fínstillingar og að lokum þá sem ekkert erindi eiga í talað mál né ritað.


A-Flokkur (Tilbúnir til almennrar notkunar):
Málshættir 1, 5, 6, 8, 13 og 14

B-Flokkur (Krefjast fínstillingar):
Málshættir 2, 3, 4, 9 og 10 

C-Flokkur (Eiga ekki afturkvæmt):
Málshættir 7, 11 og 12

Ari Hallgrímsson
Innsent 3.9.2025, birt 3.9.2025