Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

GERÐU ÞAÐ STÆKT!


Leyfðu mér að kynna fyrir þér svalasta mann jarðar, og ef ég leyfi mér að búa til nýtt lýsingarorð, mann sem einnig er sá allra stækasti. Mann sem vekur upp hjá mér tilfinningar sem engum öðrum tekst að vekja. Og hvaða maður gæti þetta verið? Jú, við erum hér að tala um saxófónleikarann Maceo Parker.

Good god! Huuh!

En hvaða tilfinningar eru þetta sem hann vekur hjá mér? Það er erfitt að lýsa þeim en þetta er einhvers konar von. Já hann vekur upp hjá mér von um að ég geti verið jafn svalur og hann. Von sem líklegast mun aldrei raungerast en samt sem áður, í hvert skipti sem ég sé hann spila þá vaknar vonin. Málið er að hans svali er ekki kominn til vegna klæðaburðar, hárgreiðslu, eða veraldlegra eigna heldur einungis vegna sviðsframkomu og stækju sem algjörlega er laus við allan rembing og uppgerð. Og þar liggur lykillinn að hamingjunni, trúi ég. Í stækjunni það er að segja. Lífið á að vera stækt. Og ef það er ekki stækt, gerðu það stækt!

Maceo Parker spilar aðallega funktónlist og gerði fyrst garðinn frægan í hljómsveit James Brown, sem kom funktónlistinni fyrst á kortið á sjöunda áratugnum. Eftir að hafa unnið með James Brown í nokkur ár stofnaði hann sína eigin hljómsveit sem hann leiddi og túraði lengi með. Síðar meir spilaði hann í hljómsveit Prince, bæði í stúdíói og á tónleikum. Orðið Funk á sér rætur í latínu og forn-frönsku og merkir í raun bara sterk eða vond (líkams)lykt, oft með neikvæða merkingu í hvítri menningu en jákvæða í menningu svartra í Bandaríkjunum, með vísun í að með dugnaði og erfiðisvinnu tónlistarmannsins (og tilheyrandi svita) verði afurðin góð. Tónlistin angar hreinlega af svitalykt. Svitastækju. Tónlistin er Funky. Tónlistin er stæk.


Maceo Parker og James Brown vel stækir á tónleikum
Oh Lordy Lord! Hah!

Gerðu það stækt. Make it Funky. Það er einmitt titilinn á einu lagi eftir James Brown sem Maceo hljóðritaði einnig sjálfur og tók iðulega á tónleikum. “Make it Funky” er jafnframt eini texti lagsins, endurtekinn út í hið óendanlega. Make it Funky. Make it Funky. Make it Funky. Eins og einhver spyrji röð spurninga sem Maceo svarar alltaf eins: Úr hvaða bolla á ég að drekka kaffið mitt? Make it Funky. Í hvaða fötum á ég að vera í dag? Make it Funky. Hvað á ég að elda í kvöld? Make it Funky. Hvernig á ég að innrétta íbúðina mína? Make it Funky. Hvernig á ég að lifa lífinu? Make it Funky.

En hvernig gerir maður kaffið, fötin, matinn, íbúðina og lífið í heild sinni stækt? Það er erfitt að segja en hver og einn þarf að finna sína stækju. Mér finnst gott að horfa og hlusta og hlusta reglulega á Maceo Parker og þegar kemur að því að tækla stóru málefnin spyr ég mig einfaldlega “Hvað myndi Maceo gera?”

Fyrir þau sem vilja kynna sér stækjuna hans Maceo betur mæli ég með að kíkja á þessa æðislega stæku tónleikaupptöku frá North Sea Jazz Festival í Hollandi 1995: 

https://www.youtube.com/watch?v=laXK5TNFn7s&list=RDlaXK5TNFn7s&start_radio=1

Kv, Björgvin
Innsent 14.8.2025, birt 14.8.2025

© Krant 2025