BENELÚX BAULIÐ
Kæru krantverjar nær og fjær. Ég hef verið að velta fyrir mér ákveðnu fyrirbæri, ákveðnu hljóði. Hljóðið afmarkast við norðurhluta Evrópu en teygir anga sína stundum út fyrir heimasvæði sitt, jafnvel til Íslands. Hljóðið líkist kúabauli en hljóðgjafarnir eru yfirleitt karlmenn á aldrinum 18 til 30. Ég kynni til leiks: Benelúx Baulið™.Þetta skrifaði ég í mars seinastliðinn því ég var orðinn svo þreyttur á því að vakna á næturnar við öskrin í ungu Belgunum í Antwerpen. Nú er ég aftur kominn til Íslands og þetta er augljóslega ekki jafn algengt en er auðvitað til. Svona sem konsept. Ég var stöðugt að velta þessu fyrir mér þarna í Twerpinu, velta því fyrir mér hvað það var sem fékk þá til að baula eins og Bjarnastaðabeljurnar, því ég var að verða vitlaus rétt eins og þær. Kannski er þetta eitthvað primal, bara að framkalla eitthvað HLJÓÐ þegar aðrir tjáningarmátar reynast manni of flóknir. En merkilegast af öllu var það að baulin voru alltaf eins. Þeir framkölluðu allir sama hljóð, sömu tvær nótur. Ein nóta sem rann niður um tvíund eða þríund. DÖÖ-ÖÖ (eða [dɝɝ-ʌʌ] fyrir nördana). Auðvitað var þetta óþolandi en á sama tíma fannst mér þetta svo merkilegt. Og finnst enn! Svo látið mig vita þegar köllunin kemur til ykkar karlmenn á aldrinum 18 til 30, köllunin til þess að kalla, hrópa, gaula og baula eins og full fótboltabulla. Og pælið í því hvað það var sem fékk ykkur til að framkalla nákvæmlega þetta hljóð. Þetta er efni í rannsókn. Ég er að rannsaka.Bauli Bjarnason
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025
AÐ DIFFRA SJÁLFIÐ
Ég hlakka til þess dags þegar sjálfið mitt verður í sinni hagstæðustu útfærslu. Hágildi sjálfs míns. Þegar ég diffra sjálfið mitt og og diffrið er núll. Það útilokar að vísu ekki að sjálfið sé í lággildi svo ég þarf að tvídiffra sjálfið og vona að á þeim tímapunkti sé tvídiffrið minna en núll.
En er kannski að einhverju leyti betra að vera í lágpunkti en hápunkti? Þá veit ég alla vega að eftir lágpunktinn liggur leiðin upp, sem er betra en hitt. En svo er náttúrulega ekkert hægt að vita hvort sjálfið sé statt í allra hæsta hágildinu eða í staðbundnum hágildispunkti og eigi eitthvað betra eftir. Skiptir kannski aðallega máli að sjálfið sé á uppleið, frekar en á hæsta punkti? Er það ferðin en ekki áfangastaðurinn? Skiptir diffur sjálfsins meira máli en sjálfið sjálft? Og hvaða máli skiptir það að diffur sjálfs míns sé jákvætt ef samfélagsdiffrið er neikvætt?
Ef ég horfi til baka og fram á veg þá sé ég fram á að 7. mars 2027 verði dagurinn þar sem sjálfið mitt fer fyrst yfir meðaltalsgildi sitt yfir ævina og eigi góðan topp í kringum 37 ára aldurinn. Þegar ég verð 54 ára verður sjálfið mitt í sinni allra hagstæðustu útfærslu, nánar tiltekið 24. apríl árið 2050, með öðrum góðum (en þó ekki jafn góðum) toppi í kringum 68 áður en það tekur kröftuga dýfu með sínu lægsta lággildi við 74 ára aldurinn. Eftir það liggur leiðin upp og ég hygg að við andlát verði gæði sjálfsins sambærileg og í þau eru í dag.
En hvernig lítur hagstæðasta útfærsla sjálfsins út? Jú, ég býst við því að hagstæðasta sjálfið efist um sjálft sig um 25-30% minna en það gerir í dag, eigi 2-4 fleiri trúnaðarvini, þar af a.m.k. einn sem það kallar maka og hafi tekið þátt í að móta tilveru eins eða tveggja einstaklinga, alla vega félagslega en ef til vill líffræðilega líka. Hagstæðasta sjálfið mun vera stolt af fimm gjörðum fyrir hverja eina sem það skammast sín fyrir. Hagstæðasta sjálfið mun gera 48-53% færri gjörðir til að þóknast öðrum sjálfum árlega en það gerir í dag. Hagstæðasta sjálfið mun líta björtum augum til framtíðar en nokkuð kaldhæðnislega veit ekki að það mun aldrei ná sömu hæðum aftur því það er löngu hætt að hugsa um ástand eigin útfærslu. Það bara er.
Höfundur er sjálf með diffur stærra en núll á tíma t = núna
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025
MÁNUDAGSMORGUNN
Mánudagsmorgunn er tímaleysi
Alltaf og alltaf eins.
Tvöþúsund og fimm eða tuttugu og fimm
Hafragrautur í skál, dagblað á borði
Norðan 12 metrar á sekúndu
og rigning
Mánudagsmorgunn er hvíld
Fimmtíu slög á mínútu.
Klukkutími líður eins og tveir
En tveir eins og einn
Kaffið klárast en ég hef tíma
til að hella upp á meira
Mánudagsmorgunn er þú
að hjúfra þig upp að mér.
Kaffið getur beðið
Dagblaðið fer hvergi
Þú ert hér og ég held áfram
að láta mig dreyma
Höfundur er vansvefta
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025
ÉG ER HÆTT Á SPOTIFY!!! (FRELSI!)
Vá, ég er loksins hætt. Ég er loksins frjáls. Merkilegt hvað það var góð tilfinning að hætta. Ég hef lengi verið á leiðinni að rjúfa áskriftina og ég get eiginlega ekki útskýrt af hverju það tók mig svona langan tíma. Mér var farið að líða eins og það væru ákveðin mannréttindi að vera sífellt með aðgang að allri jarðneskri tónlist á sama tíma og ég fékk aðskilnaðarkvíða þegar ég hugsaði um að rjúfa þessi tengsl. Mér leið eins og ég þyrfti að vera búin að undirbúa mig rosa vel, helst vera búin að hala niður allri tónlistinni sem ég var með vistaða svo ég myndi ekki glata henni. En svo tókst forstjóra Spotify loksins að vera nógu passlega ógeðslegur til þess að ég gæti ekki með nokkru móti réttlætt að vera með aðgang. Bless Spotify, ástæða: Moral issues.
Allt í einu er tónlist einhvers virði aftur!
Innst inni hef ég lengi vitað að það væri eitthvað bogið við þetta. 1700 kr. á mánuði fyrir öll lög heimsins. Kannski tengi ég bara ekki við að vera með svona mikið aðgengi. Í rauninni týni ég öllu sem ég elska í ofgnóttinni og hvert lag verður einnota. Ég var búin að gleyma tilfinninguna sem fylgir því að eiga tónlist. Ekki bara er hvert lag einhvers virði því það er eign þín (þú átt aðganginn að því, þú leigir hann ekki bara) heldur hefur hvert lag miklu meira tilfinningalegt gildi. Þetta eru lögin sem ég tók meðvitaða ákvörðun um að eiga. Lögin Sem einhver gaf mér, lögin sem ég keypti því mér finnst þau svo góð eða forvitnileg, lögin sem ég hlustaði endalaust á þegar ég var 17, lögin sem mér fannst kúl en nennti aldrei að hlusta á því platan er svo erfið. Á meðan ég skrifa er ég að hala geisladiskunum mínum niður á iTunes. Ég á alveg nóg af góðri tónlist og mér þykir svo vænt um hvert lag sem ég á. Ég þarf ekki að leigja alla tónlist í heiminum. Ef einhver er að pæla í að hætta þá mæli ég eindregið með (alla vega að finna sér aðra streymisveitu). Mitt plan er að sanka að mér geisladiskum og færa yfir á iTunes, (mögulega mun ég hala sumu niður ólöglega…) og svo ætla ég að nota þennan mánaðarlega 2000 kall til að kaupa tónlist beint af tónlistarfólki í staðinn fyrir að styrkja einhverja snauða forstjóra.
Ef einhver vill skiptast á tónlist þá má endilega hafa samband.
Katla
Innsent 27.7.2025, birt 27.7.2025
HLUTIR TIL AÐ SEGJA MEIRA
ég er búin að vera að safna lista yfir fyndin orð og orðasambönd sem mig langar að byrja að segja meira. gjörið svo vel og notið að vild:
rokk
rokkstig
punktur is
algjör steik
dot com
wc
yolo
kexruglaður
game master
landsliðs
pokasótt
awesome
swag
dungeon master
feitt
donk
fer hægt, sér margt
svara öllu 100% satt
hr sniðugur
hangavinir
djókaðu
vinkur (st. á vinkonur)
hahaha endirinn
this shit is very hard
oh captain my captain
sama og þegið
drep
pöddufullur
drekkutími
jólasveinn
shit pomfritte
-málaráðherra
myndi fórna öllu fyrir
kringlan shopping mall
biddu fyrir þér
bissnessmánudagur
krókur á móti bragði
og ekki orð um það meir
hvað ef að tungurnar okkar myndu sleikja hvor aðra?
myndi gefa allar þrjár óskirnar mínar fyrir
varstu að fa gjafabref i x? þvi þu þarft það
það ma skjota hann
sjokker fyrir engan
frekar en fyrri daginn
óttast
nenniru að muna hvernig ég er klædd?
af hverju segir hann svona?
big
virgin
oft var þörf en nú er nauðsyn
hvorki fugl né fiskur
jomo (joy of missing out)
elda grátt silfur
fyllan
pimp
hf
og þegiðu svo
liggja
fórnarlamb frama míns
borgaraleg handtaka
og það strax
lsml
að ólastaðri
að löstuðum
viltu pæla
una torfa er bubbi morthens islands
þeir sem vita vita
það þurfa ekki allir að vera góðir í öllu
held alltaf með þer
mér er til efs
jibbíkóla
láta hverjum degi nægja sína þjáningu
þessi heimur á mig ekki skilið
lærlingurinn verður meistarinn
næsta spurning
gera það sem fullorðnir gera
hoppa á mækinn
skunkur
gengur ekki alveg heill til skógar
bomborombommbomm
hefur ekki x síðan í kalda stríðinu
það eru augu og eyru allsstaðar
horklessa
með algjöran bóner
skreið upp á yfirborð jarðar frá helvíti
cocksolid
ríddu mér í pjölluna
of all time
verkar í anda
María Einarsdóttir
Innsent 19.7.2025, birt 23.7.2025
LOKSINS HUNDADAGAR
Gleðilega hundadagar. Loksins byrjaðir!!
Katla
Innsent 13.7.2025, birt 13.7.2025
FL. MYNDIR FRÁ PORTÚGAL
Myndir frá Portúgal.
Kv. Katla Björk
Innsent 13.7.2025, birt 13.7.2025
BÓK Í DÓS FUNDUR 29. JÚNÍ
Komið þið sæl og blessuð kæra mannfólk, álfar, hobbitar, dvergar, dríslar og myrkrahöfðinginn Sauron.Föruneyti hringsins, fyrsta bókin í Hringadróttinssögu. Stórskemmtileg bók um nokkra snillinga, minnti mig óneitanlega á einn bókaklúbb sem ég þekki… En ég get sagt ykkur það að lesturinn var ekki auðveldur. Tveir meðlimir klúbbsins enduðu í 5 mánaða svaðilför til meginlandsins. Hvað þeir voru að gera þar veit ég ekkert um. En ég get nú sagt ykkur það kæru vinir að Belgía er ekkert eins og Mordor, bara nákvæmlega ekkert eins og Mordor. Svei attan. Þeir sem voru eftir á landinu gerðu sitt besta til þess að finna tíma til að lesa, þetta eru vinnandi menn sjáðu til. En að lokum tókst þetta þó, lesturinn sigraði og þeir sjá nú styttingu vinnuvikunnar í hyllingum. Af hverju? það veit ég ekki. Á endanum fórum við í ansi marga hringi en enduðum svo bara í einum hring. Einum mikilfenglegum, stórkostlegum hring. Næsti hringur verður svo fjandi spennandi held ég. Ætli hann endi ekki uppi í Esju bara. Eða Dómsdyngju…
Tómas: klassík/10
Hugi: klassík/10
Þórhallur: klassík/10
Ari: klassík/10
Meðaleinkunn: 7
Næsta bók er Breiðþotur eftir Tómas Ævar Ólafsson
Frekari upplýsingar um klúbbinn má finna á heimasíðunni: bokidos.com eða instagram síðu klúbbsins.
Adíós,
Bók í dós strágarnir
Innsent 4.7.2025, birt 4.7.2025
MÁLVERK DAGSINS 21. JÚNÍ 2025
Málverk dagsins er................ Sleepless two weeks before, until two weeks after the full moon eða Andvaka tveimur vikum fyrir, þar til tveimur vikum eftir fulla tunglið eftir belgíska listamanninn Dennis Tyfus! Við sáum það seinastliðinn febrúar og vorum mjög hrifin af því. Njótið sumarsins, við erum svo sannarlega að því.
XOXO
Tatla og Kómas
Innsent 21.6.2025, birt 21.6.2025
DANSVÍDEÓ
Svoldið skemmtilegt vídeó af strák að dansa.
Kv. Katla beib
Innsent 10.6.2025, birt 10.6.2025