Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

BENELÚX BAULIÐ

Kæru krantverjar nær og fjær. Ég hef verið að velta fyrir mér ákveðnu fyrirbæri, ákveðnu hljóði. Hljóðið afmarkast við norðurhluta Evrópu en teygir anga sína stundum út fyrir heimasvæði sitt, jafnvel til Íslands. Hljóðið líkist kúabauli en hljóðgjafarnir eru yfirleitt karlmenn á aldrinum 18 til 30. Ég kynni til leiks: Benelúx Baulið™.Þetta skrifaði ég í mars seinastliðinn því ég var orðinn svo þreyttur á því að vakna á næturnar við öskrin í ungu Belgunum í Antwerpen. Nú er ég aftur kominn til Íslands og þetta er augljóslega ekki jafn algengt en er auðvitað til. Svona sem konsept. Ég var stöðugt að velta þessu fyrir mér þarna í Twerpinu, velta því fyrir mér hvað það var sem fékk þá til að baula eins og Bjarnastaðabeljurnar, því ég var að verða vitlaus rétt eins og þær. Kannski er þetta eitthvað primal, bara að framkalla eitthvað HLJÓÐ þegar aðrir tjáningarmátar reynast manni of flóknir. En merkilegast af öllu var það að baulin voru alltaf eins. Þeir framkölluðu allir sama hljóð, sömu tvær nótur. Ein nóta sem rann niður um tvíund eða þríund. DÖÖ-ÖÖ (eða [dɝɝ-ʌʌ] fyrir nördana). Auðvitað var þetta óþolandi en á sama tíma fannst mér þetta svo merkilegt. Og finnst enn! Svo látið mig vita þegar köllunin kemur til ykkar karlmenn á aldrinum 18 til 30, köllunin til þess að kalla, hrópa, gaula og baula eins og full fótboltabulla. Og pælið í því hvað það var sem fékk ykkur til að framkalla nákvæmlega þetta hljóð. Þetta er efni í rannsókn. Ég er að rannsaka.







Bauli Bjarnason
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025

© Krant 2025