Ég nota aldrei belti, nema þegar ég hreinlega neyðist til þess – t.d. þegar ég fæ lánaðar buxur sem eru of stórar á mig eða þegar vinnubuxurnar sem mér var úthlutað í sumarvinnunni fengust aðeins í fáránlegu sniði sem falla líklegast ekki vel að nokkrum líkama. Annars eru belti ekki í minni stílrænu verkfærakistu, án þess að það sé endilega til marks um að mér líki þau ekki. Þvert á móti finnst mér þau mjög áhugavert fyrirbæri. Þau virðast nokkuð persónubundin, og það þykir mér skemmtilegt. Sumir verða að nota belti og komast ekki hjá því. Þeim hópi tilheyra, að ég held, margir karlmenn sem hafa einfaldlega ekki mjaðmalögun og afturenda í að halda buxunum á sínum stað. Það á eflaust við um einhverjar konur líka, og sömuleiðis kvár. Það eru spor sem ég get ekki auðveldlega sett mig í, enda með nokkuð umfangsmiklar mjaðmir sem eiga ekki í nokkrum vandræðum með að styðja við gallabuxurnar mínar. Ef til vill væri ég með annað viðhorf í garð beltisins ef ég væri háðari því. Ég er til að mynda háðari töskunni heldur en margir aðrir, bæði flestir karlar sem ég þekki og fleiri af öðrum kynjum, en ég tilheyri alls ekki þeim hópi fólks sem getur farið slakur út í daginn eða kvöldið með ekkert annað en farsímann, lyklakippu, kortaveski og kannski varasalva eða handáburð meðferðis. Ég þarf alltaf að hafa með mér tösku. Hún er þó ekki sérlega gott dæmi til að varpa hér fram samhliða beltinu, þar sem tilgangur töskunnar og notagildi er mun meiri og allt annar. Það ætti mögulega betur við að bera beltið saman við klútinn, eða þá trefilinn eða sjalið. Þau fyrirbæri hafa eitthvað notagildi, það er, að halda á manni hita (sbr. það hvernig beltið heldur buxunum að), en skipta þó ekki höfuðmáli við þann tilgang (sbr. snið og stærð buxnanna). Líklega gætum við þó öll fallist á það að sjalið er talsvert augljósara tískufyrirbæri en beltið. Ég myndi sjálf saka alla sem ég sæi með klút um hálsinn um að klæðast honum einvörðungu í tískutengdum tilgangi, en þar sem beltið hefur fest sig í sessi sem praktísk og viðurkennd aðferð við fatasniðslagfæringar þætti mér mun jafnari líkur á þeim tilgangi og hinum, yrði einhver beltisklæddur á vegi mínum um leið. Á lista yfir aðrar lagfæringaraðferðir má að sjálfsögðu bæta öryggisnælum, tölum og slíku en einnig axlaböndum og sokkaböndum, sem er mikil synd að skuli ekki sjást víðar. Vinkona mín lofaði mér því yrir tæplega þremur árum síðan að byrja að klæðast axlaböndum um leið og hún byrjaði í háskólanámi, en nú er svo komið að hún er á þriðja ári og hefur aldrei sést með slík, hvorki í gríni né alvöru, sem mér þykir miður. Það felst nefnilega mikil kómík í bæði axlaböndunum og í vissum skilningi klútnum, en svo er ekki farið með beltið. Það getur verið fullkomlega hlutlaust og nánast ósýnilegt, ef nægilega látlaust er. Svo getur það að sjálfsögðu líka verið æpandi; hávært, áberandi og ögrandi. Í þann flokk myndi ég að öllum líkindum setja beltið sem ég klæddist í vinnunni, eina beltið sem ég á, sem þótti mjög flott fyrir nokkrum árum en uppsker aðeins augngotur og athugasemdir er því er klæðst við litlausan vinnufatnaðinn, enda alsett götum og líklega bara svolítið pönk. Ég gat samt ekki hugsað mér að kaupa mér ljótt plastbelti með engan karakter í þess stað. Ég kaus að vera frávik í nafni þess að skera mig að einhverju leyti úr. Í því felst ef til vill kraftur beltisins: Tíska án skuldbindingar. Kjósi maður að klæðast óþægilegum skóm eða gleraugum í nafni tískunnar, líður maður einungis fyrir það með hælsæri, nuddsári eða öðrum óþægindum, en beltið býður upp á tímabundna ytri tjáningu óháða líkamlegri skynjun. Í kjölfar þessara
hugleiðinga minna velti ég því fyrir mér hvort það liggi ekki beinast við að ég fái mér fleiri belti sem fyrst svo ég geti nýtt þennan tjáningarmiðil til fulls og í samræmi við minn persónulega hversdagsstíl. Þær áætlanir mínar fjúka svo undir eins út um gluggann þegar það rennur almennilega upp fyrir mér að ég er einfaldlega ekki kona sem gengur með belti, nema þegar ég hreinlega neyðist til þess.
Mbkv Tinna Kja
Innsent 12.9.2025, birt 12.9.2025