Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT
Senda inn efni listanes.office@gmail.com Upplýsingar Slembigrein
KRANT

AÐ DIFFRA SJÁLFIÐ


Ég hlakka til þess dags þegar sjálfið mitt verður í sinni hagstæðustu útfærslu. Hágildi sjálfs míns. Þegar ég diffra sjálfið mitt og og diffrið er núll. Það útilokar að vísu ekki að sjálfið sé í lággildi svo ég þarf að tvídiffra sjálfið og vona að á þeim tímapunkti sé tvídiffrið minna en núll. 

En er kannski að einhverju leyti betra að vera í lágpunkti en hápunkti? Þá veit ég alla vega að eftir lágpunktinn liggur leiðin upp, sem er betra en hitt. En svo er náttúrulega ekkert hægt að vita hvort sjálfið sé statt í allra hæsta hágildinu eða í staðbundnum hágildispunkti og eigi eitthvað betra eftir. Skiptir kannski aðallega máli að sjálfið sé á uppleið, frekar en á hæsta punkti? Er það ferðin en ekki áfangastaðurinn? Skiptir diffur sjálfsins meira máli en sjálfið sjálft? Og hvaða máli skiptir það að diffur sjálfs míns sé jákvætt ef samfélagsdiffrið er neikvætt?

Ef ég horfi til baka og fram á veg þá sé ég fram á að 7. mars 2027 verði dagurinn þar sem sjálfið mitt fer fyrst yfir meðaltalsgildi sitt yfir ævina og eigi góðan topp í kringum 37 ára aldurinn. Þegar ég verð 54 ára verður sjálfið mitt í sinni allra hagstæðustu útfærslu, nánar tiltekið 24. apríl árið 2050, með öðrum góðum (en þó ekki jafn góðum) toppi í kringum 68 áður en það tekur kröftuga dýfu með sínu lægsta lággildi við 74 ára aldurinn. Eftir það liggur leiðin upp og ég hygg að við andlát verði gæði sjálfsins sambærileg og í þau eru í dag.

En hvernig lítur hagstæðasta útfærsla sjálfsins út? Jú, ég býst við því að hagstæðasta sjálfið efist um sjálft sig um 25-30% minna en það gerir í dag, eigi 2-4 fleiri trúnaðarvini, þar af a.m.k. einn sem það kallar maka og hafi tekið þátt í að móta tilveru eins eða tveggja einstaklinga, alla vega félagslega en ef til vill líffræðilega líka. Hagstæðasta sjálfið mun vera stolt af fimm gjörðum fyrir hverja eina sem það skammast sín fyrir. Hagstæðasta sjálfið mun gera 48-53% færri gjörðir til að þóknast öðrum sjálfum árlega en það gerir í dag. Hagstæðasta sjálfið mun líta björtum augum til framtíðar en nokkuð kaldhæðnislega veit ekki að það mun aldrei ná sömu hæðum aftur því það er löngu hætt að hugsa um ástand eigin útfærslu. Það bara er.

Höfundur er sjálf með diffur stærra en núll á tíma t = núna
Innsent 29.7.2025, birt 29.7.2025

© Krant 2025