Senda inn efni listanes.office@gmail.com
KRANT

Annað tölublað er í vinnslu, endilega sendið inn efni fyrir þriðja tölublað á listanes.office@gmail.com 
Tökum við öllu efni, ljóðum, greinum, pælingum, bloggpóstum, myndum o.s.frv.
Upplýsingar
Slembigrein

Á TÍMUM OFDRAMBS / A WIZARD OF EARTHSEA



“Til að breyta steini í geimstein, verður þú að breyta raunnafni steinsins. Og það, sonur minn, að breyta svo lítið sem einu hrafli heimsins, er sama og að breyta heiminum. […] Þú skalt ekki breyta neinu einu, hvorki einni smávölu né einu sandkorni, þar til þú veist hvaða góða og hvaða illa mun fylgja þeirri gjörð. Heimurinn er í jafnvægi eins og hann er.”Við sem lifum í dag værum galdrakarlar fortíðarinnar. Við höfum kraftinn til að breyta hugmyndum í hluti í vörur í peninga í Völd! Í Hallir! Í Stærri brjóst! Í Embættisstöður! Í Svörin o.s.frv. Og samkvæmt yfirlýsingum allra þá býr þessi samtímakraftur innra með okkur. 

YOU HAVE THE MAGIC! vörulýsing:

Búðu þig undir breytt líf.
Kathrin Zenkina, manifesteisjonsérfræðingur og forstjóri Manifesteisjonsbeib ritar:

Hvað ef þú uppgötvaðir að þú býrð nú þegar yfir öllu því sem þú þarft til að áorka drauma þína og lifa lífinu sem þér hefur alltaf langað að lifa. Þó þetta hljómi kannski eins og töfrar, þá eru vísindin líka með okkur í liði. Aðferðir studdar af taugavísindum gera okkur kleift að endurtengja heilann og undirmeðvitundina. Við getum breytt lífum okkar. Og í raun eru margir nú þegar byrjaðir. 

En hafa skaltu í huga, ungi galdrakarl:
“að kveikja á kerti er það sama og að varpa skugga”.




Pétur Kiernan, eigandi Metta-sport er “yngsti self-made milljónamæringurinn undir þrítugt,” samkvæmt vefsíðu Vísis. Pétur er sjálfskapaður, það er að segja hann bjó sjálfan sig til frá grunni og mögulega mætti segja að hann virkjaði galdrana innísér og nýtti þá til að búa sig til, til að búa til milljónamæring. Og það sem okkur hinum þykir fréttnæmt er að hann var óeðlilega fljótur að því. Pétur Kiernan er sem sagt merkilegur af því að hann er:

    1. Self-made (sjálfskapaður)
    2. Undir þrítugt
    3. Milljónamæringur
    4. Yngsti self-made milljónamæringurinn undir þrítugt.

Sem betur fer, fyrir Pétur, er hann undir þrítugt því í dag er enginn neitt nema sá hinn sami sé eitthvað undir þrítugt. Það er ekki merkilegt að kaupa íbúð eftir þrítugt, fá greinar birtar, eiga fleiri en eina milljón, vera með vinsælt hlaðvarp, vera kóngurinn, vera heimsþekktur listamaður. Ekkert er merkilegt eftir þrítugt því þetta á ekki að vera neitt mál eftir þrítugt. Það eiga allir að vera búnir að ná markmiðum sínum fyrir þrítugt því eftir þrítugt byrjum við að deyja. Flýtum okkur!! Við hin (dómstóll götunnar?) lofum að fylgjast með þangað til klukkan slær seinasta miðnætti tuttugastaogníunda aldursársins. En plís, hættu þessu væli, þetta er ekkert mál, þetta er nefnilega allt innra með þér. Finndu og virkjaðu galdrana innra með þér, komdu þeim út, gerðu þá að vöru, búðu til peninga, breyttu peningunum í Eignir í Hvíta snekkju í Sægrænan sjó í Sæta skvísu í Louis Vuitton í Kabúmmelaði! Í dag er endalaust hægt að galdra fram ef þú ert með aðgengi að göldrunum.

En svo er það sem ég er í alvöru búin að vera að hugsa: Við treystum ekki fólki yngra en 35 til að fara með embætti forseta Íslands og samfélagið okkar er nú þannig að þeir sem eiga marga-marga-peninga eru gjarnan með meiri völd en æðstu embættismenn. Peningar ráða hvaða vörur eru búnar til, hvurslags byggingar eru byggðar, hversu mikið við mengum, hvar er virkjað, hvaða tækni er þróuð, hver fær að lifa lengur og hver fær að deyja núna. Er fólk undir þrítugt nógu þroskað til að vera með svona mikil völd? Er yfir höfuð einhver nógu þroskaður til að vera með svona mikil völd? Við reynum okkar besta að gera þá kröfu til embættismanna að þeir séu eitthvað-x-þroskaðir en engum dettur það í hug að gera þá kröfu til peningavaldhafa. Heldur er eiginlega hvatt til þess að fólk sem er nýútskrifað úr menntaskóla geri allt sem í valdi þeirra stendur að afla sér pening. Þú átt að byrja að fjárfesta, kaupa jakkaföt, vakna klukkan sex, stofna hlaðvarp, kaupa tvær íbúðir, leigja íbúðirnar út, hlaupa hratt, lesa hratt, lesa alla gömlu meistarana, hugleiða, búa til smoothie, læra að forrita og búa til skilnaðarbörn. Gleymdu því að þroskast því núna er tíminn til að grænda. 


“Þú býrð yfir mikilfenglegum meðfæddum krafti, og þú hefur notað hann með rangindum, til þess að spinna galdra sem þú hafðir enga stjórn yfir, vitandi ekki að galdrarnir hafa áhrif á jafnvægi ljóss og myrkurs, lífs og dauða, góðs og ills. Og það var stolt og hatur sem fékk þig til að gera svo. Er einhver furða að afleiðingarnar voru eyðilegging. Er einhver furða að það sem eftir kom var eyðilegging.”Ég las, fyrr í ár, bókina A Wizard of Earthsea (Galdramaður Jarðsævar, mayhaps?) eftir Ursula Le Guin. Þaðan koma tilvitnanirnar og það er líka í raun ástæða þessa pistils. Mér fannst það svo góð hetjusaga. Hetjan Ged byrjar söguna hrokafullur og ofmetnaðarfullur. Hann ætlar bara að læra að galdra og galdra mikið og læra hratt. First kennarinn hans, Ogion, gerir tilraun til þess að kenna honum þolinmæði og kenna honum að hlutverk okkar í alheiminum er ekki að rjúka beint upp á stjörnuhimininn með glæsilegum galdratrixum heldur að viðhalda jafnvægi heimsins. Og því meiri völd því mikilvægara er að nota þau sparlega og einungis ef maður er meðvitaður um áhrifin sem þau munu hafa á nærumhverfi þitt. 
“Þegar þú þekkir fjórblöðung allra árstíða, rót og lauf og blómið bæði af lykt og fræi, þá máttu læra raunnafn hans, læra tilveru hans; sem er meiri en notagildi hans. Hvað, eftir allt saman, er notagildi þitt? Eða mitt eigið? Er Gontfjall nytsamlegt, eða rúmsjórinn?”

Þetta er svo æðisleg lexía, þó hún sé einföld: Tilvera alls er jafngild! Tilvera allra manneskja, sama hve mikið þær eiga! Tilvera dýra og blóma sama hversu vel þau nýtast mannkyninu! Tilvera fjallana þó þau séu fyrir einhverjum. Tilvera mömmu og pabba, tilvera ljóðsins, tilvera ljóssins, tilvera guðanna, tilvera fortíðarinnar, tilvera strumpanna og tilvera Kjartans. Okkar hlutverk er að vinna saman og stefna á jafnvægi. Blásum ekki út heimild okkar ef það skerðir heimild einhvers annars. Bjútifúl fílósófía. 

En Ged lá of mikið á. Hann ætlaði sér að verða máttugur eins hratt og hann gat og hann leyfði ofdrambi sínu að leiða sig í gönur. Ungur byrjar hann að fikta með völd og fikta með jafnvægi heimsins og sagan lætur hann gjalda rækilega fyrir það. Fallið er alltaf hæst frá toppnum. Þegar ég kláraði bókina hugsaði ég: Vá, hér er saga sem er viðeigandi í samtímanum. Ég hugsaði: Hættum að framleiða endalaust af suxesssögum, sögum um ungasnillinga sem þurfa bara að komast yfir óöryggi sitt og taka áhættur! Sigra heiminn! Nei takk! Skrifum frekar um ofdrambið, skrifum um fólk sem lifir í þeirri trú að heimurinn standi og falli með þeirra eigin velgengni og fylgjumst með þeim skjóta sig í fótinn; verða öllum heiminum og þeim sjálfum þar af leiðandi að falli því öll tilheyrum við þessum heimi. Mér er alveg sama þó einhver sé yngsti self-made milljónamæringurinn undir þrítugt.

A Wizard of Earthsea ★★★★
                 
lifið í lukku, kv. Katla
Innsent 21.8.2025, birt 21.8.2025